Ríkisendurskoðun hefur verið falið að gera skýrslu um aðkomu Samgöngustofu, eftirlitsaðila með flugrekstri á Íslandi, og opinbera fyrirtækisins Isavia, sem rekur m.a. Keflavíkurflugvöll, að starfsemi og rekstri WOW air í aðdraganda og kjölfar gjaldþrots flugfélagsins. Skýrslunni á að skila í haust.
Þetta var ákveðið á fundi umhverfis- og samgöngunefndar í gær en beiðnin um úttektina var lögð fram af Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Aðkoma stjórnvalda skoðuð ofan í kjölinn
Í greinargerð sem fylgdi með beiðninni segir að aðkomu stjórnvalda að málum WOW air þyrfti einnig að skoða ofan í kjölinn og hvaða heimildir Isavia hafi til að veita flugrekendum greiðslufrest á lendingar- og þjónustugjöldum, líkt og WOW air fékk.
Í Fréttablaðinu segir að í beiðninni sé óskað eftir úttekt á því hvernig Samgöngustofu hafi tekist að uppfylla lögbundið hlutverk sitt og aðrar lögbundnar skyldur í málefnum sem tengjast WOW air. Í úttektinni eigi að draga fram hvort að verkferlum hafi verið fylgt varðandi ákvörðunartöku. Þá verður aðkoma Isavia einnig skoðuð „út frá hagkvæmni, meðferð og nýtingu ríkisfjár,“ samkvæmt frétt blaðsins. Auk þess verður kannað hvort að unnið hafi verið eftir verkferlum og samþykktum Isavia í viðskiptum þess við WOW air.
Dauðastríð fyrir opnum tjöldum
WOW air varð gjaldþrota 28. mars síðastliðinn. Þá hafði félagið barist í dauðastríði fyrir opnum tjöldum frá því síðsumars 2018 og átt í miklum erfiðleikum allt frá haustinu 2017.
Samgöngustofa er sú eftirlitsstofnun sem gefur út flugrekstrarleyfi og á að hafa eftirlit með því að þau flugfélög sem fá slíkt séu rekstrarhæf. Stofnunin hefur verið víða harðlega gagnrýnd fyrir að grípa ekki fyrr inn í rekstur WOW air þegar ljóst var að eiginfjárstaða félagsins var afar bágborin og illa gekk fyrir það að fá nýja fjárfesta að rekstrinum.
Isavia veitti WOW air sömuleiðis umtalsverðan slaka vegna skulda sem safnast höfðu upp vegna vangoldinna lendingar- og þjónustugjalda á Keflavíkurflugvelli. Þegar WOW air fór í þrot stóðu þær skuldir í um tveimur milljörðum króna. Óljóst er hversu mikið af þeim fjármunum munu innheimtast en Isavia kyrrsetti flugvél í eigu leigusala WOW air og vonaðist til að geta krafið hann um greiðslu á skuldinni. Tekist er á um það mál fyrir dómstólum.
Skúli vill WOW 2.0
Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins WOW air, sagði í erindi sem hann hélt á viðburði Startup Iceland í Hörpu í vikunni að ef hann fengi tækifæri til að stofna annað flugfélag þá myndi hann gera það, þó ekki endilega sem forstjóri. Nýja flugfélagið myndi hann kalla WOW air, „enda frábært vörumerki“ að hans mati.
Hann sagði að það yrði slæmt ef þekkingin og reynslan sem aflaðist við rekstur og uppbyggingu WOW air yrði ekki nýtt. Ekki væri hægt að byggja upp slíka þekkingu auðveldlega aftur og því taldi hann að nú ætti að nýta tækifærið. Ísland verði að vera með lággjaldaflugfélag.
„Ég ætla ekki endilega að gera þetta á morgun en ég vil fá tækifæri til að gera þetta aftur,“ sagði Skúli og bætti því við að honum sé aftur farið að leiðast. Hann benti enn fremur á að nú væri samdráttur í íslensku samfélagi og að einhver yrði að gera eitthvað í þessum málum.