Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur fordæmt ÞÁ ákvörðun innanríkisráðherra Bretlands að samþykkja framsalsbeiðni bandarískra yfirvalda um Julian Assange, stofnanda Wikileaks. Þetta kemur fram í umfjöllun RÚV.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, sagði í samtali við RÚV að óviðunandi væri að Assange yrði framseldur til Bandaríkjanna eins og hver annar glæpamaður og að hann hefði komið mikilvægum upplýsingum á framfæri við almenning.
Fyrr í dag fordæmdi Félag fréttamanna RÚV handtöku Assange og skoraði á íslensk stjórnvöld að beita sér gegn framsali hans. Sagði í tilkynningu félagsins: „Lýðræði þrífst ekki án sjálfstæðra fjölmiðla. Sjálfstæðir fjölmiðlar þrífast vart ef stjórnvöld ofsækja uppljóstrara sem koma upplýsingum á framfæri,“ segir enn fremur í tilkynningunni.