Skimun á vegum Matvælastofnunar sýnir að STEC E. coli finnst bæði í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum. STEC fannst í 30 prósent sýna stofnunarinnar af lambakjöti og 11,5 prósent sýna af nautgripakjöti. Sóttvarnalæknir segir niðurstöðurnar sláandi og segir þær ekki í samræmi við umræðuna um íslenska framleiðslu samanborið við erlenda. Fyrir Alþingi liggur stjórnarfrumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem heimilar innflutning á fersku kjöti, eggjum og vörum úr ógerilsneyddri mjólk, frá og með 1. september næstkomandi.
Getur valdið alvarlegum veikindum í fólki
Skimunin var á vegum Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins en þetta er í fyrsta sinn hefur verið skimað fyrir eiturmyndandi tegund E.coli í kjöti af sauðfé og nautgripum hérlendis. Sýnatakan fór fram í verslunum og tekin voru um 600 sýni af kjöti af sauðfé, nautgripum, svínum og kjúklingum, af innlendum eða erlendum uppruna frá mars til desember 2018.
Niðurstöður skimunar fyrir STEC benda til að shigatoxín myndandi E. coli sé hluti af náttúrulegri örveruflóru íslenskra nautgripa og sauðfjár. STEC fannst í 30 prósent sýna af lambakjöti og 11,5 prósent sýna af nautgripakjöti.
Matvælastofnun segir að ljóst sé að rannsaka þarf betur STEC í kjöti og skerpa þarf á fyrirbyggjandi aðgerðum í sláturhúsum og kjötvinnslum til að minnka líkur á að STEC berist í kjötið. Þá greindust salmonella og kampýlóbakter ekki í svína- og alifuglakjöti í skimum stofnunarinnar að undanskilinni salmonellu sem fannst í einu sýni af svínakjöti.
Á vef Matvælastofnunar segir að STEC sé eiturmyndandi tegund E. coli sem getur valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur en einnig getur sjúkdómurinn leitt til nýrnaskaða, svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome). Fólk getur smitast af STEC með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða umhverfi menguðu af saur þeirra. Þá segir að neytendur geta dregið verulega úr áhættu með því að gegnumelda kjöt fyrir neyslu og gæta að krossmengun.
Ráðherra lagði fram frumvarp í kjölfar niðurstöðu EFTA- dómstólsins
Í febrúar síðastliðnum lagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að frystiskylda á innfluttu kjöti verði afnumin og heimilt verði að flytja inn ferskt kjöt, fersk egg og vörur úr ógerilsneyddri mjólk. Á sama tíma kynnti ráðherra aðgerðaáætlun með mótvægisaðgerðum til þess að verja íslenska búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nái frumvarpið fram að ganga munu hömlur á innflutningi falla niður þann 1. september næstkomandi.
Frumvarpið er lagt fram í kjölfar niðurstöðu EFTA-dómstólsins en þann 14. nóvember 2017 komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska leyfisveitingakerfið fyrir innflutning á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins. Dómstóllinn telur að það sé ósamrýmanlegt fimmtu grein tilskipunarinnar að skilyrða innflutning á slíkum vörum. Hæstiréttur komst að sömu niðurstöðu þann 11. október 2018 að íslenska ríkið hefði brotið gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum með því að halda við lýði banni við innflutningi á fersku kjöti hingað til lands.
Í febrúar á þessu ári birti Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, rökstutt álit vegna mats stofnunarinnar um það að Ísland hefði ekki uppfyllt skyldur sínar vegna dóms EFTA-dómstólsins. Íslenskum stjórnvöldum var gefinn tveggja mánaða frestur til að ráða bót á því. Sá frestur rann út 13. apríl síðastliðinn.
Leggja til að fresta gildistökunni um tvo mánuði
Frumvarpið fór til meðferðar í atvinnuveganefnd í kjölfar fyrstu umræðu á þingi og birti nefndin nefndarálit sitt með breytingartillögu í lok síðasta mánaðar. Í álitinu segir að nauðsynlegt sé að bregðast við áliti ESA og breyta lögum því að annars sé vísvitandi verið að viðhalda ólöglegu ástandi. Bendir nefndin á að fyrir íslenskt samfélag felist gríðarlega miklir þjóðhagslegir hagsmunir í því að staða landsins sem hluti af hinum innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins sé tryggð, m.a. fyrir útflutning á íslenskum búvörum. Nefndin leggur hins vegar til að gildistöku frumvarpsins verði frestað um tvo mánuði, eða til 1. nóvember 2019, til þess að nægur tími sé til að ljúka tilteknum aðgerðum í aðgerðaáætluninni til að tryggja matvælaöryggi áður en leyfisveitingakerfið verður afnumið.
Frumvarp ráðherra hefur verið harðlega gagnrýnt af Bændasamtökum Íslands og birtu samtökin yfirlýsingu um málið í febrúar. Í yfirlýsingunni segir að hafið sé yfir allan vafa að innflutningurinn mun valda íslenskum landbúnaði miklu tjóni og ógna bæði lýðheilsu og búfjárheilsu.
„Viðskiptahagsmunir eru teknir fram yfir heilbrigðisrök. Búfjárheilsa er látin lönd leið og bitlausar varnir í aðgerðaáætlun landbúnaðarráðherra duga skammt. Það er þverstæða að kynna til sögunnar aðgerðaáætlun til að auka matvælaöryggi á sama tíma og innflutningur á hráu ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum mjólkurafurðum er heimilaður. Við eigum hreina og heilbrigða búfjárstofna og erum heppin að því leyti að matvælasýkingar eru fátíðar hérlendis. Það er beinlínis skylda okkar að viðhalda þeirri góðu stöðu,“ segir í yfirlýsingunni.
Sjúkdómsvaldandi bakteríur finnast líka í íslensku kjöti
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að niðurstöður Matvælastofnunar séu sláandi. Hann segir að þessar bakteríur geti valdið sýkingu og það sé sláandi að svona mikið af þessum bakteríum skuli finnast í íslensku lambakjöti og nautakjöti. Hann segir niðurstöðurnar jafnframt sýna að umræðan um erlent kjöt hér á landi hafi verið á villigötum.
„Þetta sýnir bara það að þetta er ekki eins og umræðan hefur verið um íslenska framleiðslu samanborið við þá erlendu. Sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmar bakteríur finnast líka í íslensku kjöti. Við erum ekki bara að tala um útlensk matvæli,“ segir Þórólfur.
Í könnun MMR í apríl síðastliðnum sögðust 55 prósent aðspurðra vera andvígir innflutningi á fersku kjöti frá löndum Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) til Íslands. Alls sögðust 27 prósent vera fylgjandi slíkum innflutningi. 17 prósent aðspurðra tók ekki afstöðu.