Orkusjóður mun úthluta 250 milljónum í tvennskonar fjárfestingastyrki til uppbyggingar á hleðslustöðum fyrir rafbíla og auglýsir nú eftir umsóknum. Ríkisstjórnin tilkynnti nýlega um ráðstöfun 450 milljóna króna vegna orkuskipta í samgöngum á árunum 2019 til 2020. Þar af mun ríkisstjórnin úthluta 200 milljónum í styrki til uppbyggingar á hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla og 50 milljónum til uppbyggingar á hleðslustöðvumfyrir rafbíla við gististaði.
Stuðningur við innviði fyrir rafbíla
Ríkisstjórn Íslands lagði fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í september í fyrra. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Eitt af áhersluatriðum áætlunarinnar eru orkuskipti í samgöngum sem er stærsti losunarþátturinn sem snýr að beinum skuldbindingum Íslands. Í heildina áætlar ríkisstjórnin að verja 1,5 milljarða króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.
Eitt af þeim aðgerðum sem finna má í áætluninni er að stuðningur við innviði fyrir rafbíla og aðrar vistvænar bifreiðar. Samkvæmt áætluninni er stefnt að því að draga losun frá vegasamgöngum um 35 prósent til ársins 2030 eða um helming frá því sem nú er. Einn angi af því markmiði er að árið 2030 verða 100.000 skráðir rafbílar og önnur vistvæn ökutæki á Íslandi.
Í skýrslunni segir að sala á rafbílum og blandbílum hefur tekið kipp í kjölfar ívilnana í sköttum og gjöldum og uppbyggingar á hleðslustöðvum. Nú er hlutfall endurnýjanlegrar orku í vegasamgöngnumum 7,7 prósent en stefnt er að því að hlutfallið verði 40 prósent árið 2030 samkvæmt þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti.
Hindrunarlaus akstur á langferðum
Því réðst ríkisstjórnin í átaksverkefni með það að markmiði að fjölga aflmiklum hraðhleðslustöðvum (DC) þar sem þörf er mest til að tryggja hindrunarlausan akstur á langferðum. Orkusjóður mun úthluta 200 milljónum í styrki til uppsetningar hraðhleðslustöðvanna. Sá umsækjandi verður valinn sem býður lægsta kostnað við uppsetningu en eingöngu eru veittir fjárfestingarstyrkir og geta styrkir hæst numið 50 prósent af áætluðum kostnaði verkefnis.
Orkusjóður mun einnig veita styrki til að fjölga hleðslustöðvum við gististaði þannig mögulegt verði að auka hlutdeild rafbíla í ferðaþjónustu. Til úthlutunar eru 50 milljónir króna en eingöngu eru veittir fjárfestingarstyrkir og geta styrkir hæst numið 50 prósent af áætluðum kostnaði verkefnis.
Íslendingar spara hlutfallslega meira en aðrar þjóðir á því að skipta yfir í rafbíla
Sigurður Ingi Friðleifsson, formaður starfshóps um orkuskipti í samgöngum, sagði í samtali við Kjarnann að rafbílavæðing væri mikilvæg til að standast skuldbindingar Íslands gagnvart Parísarsamkomulaginu. Hann sagði stærsta hluta beinna skuldbindinga stjórnvalda þegar kemur að loftslagsmálum vera olíunotkun, þar af væri stærsti hluti olíunotkunar bifreiðar. Olíunotkun á Íslandi hefði minnkað alls staðar nema í vegasamgöngum, þar væri hún í vexti.
Sigurður sagði lausnir við því vandamáli vera skýrar, þ.e. minni notkun fólksbíla og svo orkuskipti. Hann bætti hins vegar við að kaup og rekstur nýorkubíla yrðu að vera samkeppnishæfur gagnvart neytendum, innviðir þyrftu að vera til staðar, auk þess sem neytendur þyrftu einnig sjálfir að velja hreinorkubíla.
Jafnframt sagði hann það vera mýtu að rafmagnsbílar væru óumhverfisvænni og að Íslendingar spöruðu hlutfallslega meira en aðrar þjóðir af því að skipta yfir í rafbíla.