Fulltrúar frá ríkisstjórninni, stóriðjunni og Orkuveitu Reykjavíkur hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um hreinsun og bindingu kolefnis. Samkvæmt yfirlýsingunni verður kannað til hlítar hvort aðferð sem kölluð er „CarbFix“ geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til þess að draga úr losun CO2 frá stóriðju Íslands. Auk þess ætla fyrirtækin hver um sig leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands.
Skref í átt að víðtæku samráði
Þann 28. maí síðastliðinn skrifuðu fulltrúar atvinnulífsins og stjórnvalda undir samkomulag um samstarfsvettvang um loftslagsmál og grænar lausnir. Markmið vettvangsins er að bæta árangur Íslands í loftlagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði. Þar á meðal er að stjórnvöld og atvinnulífið vinni í sameiningu að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu segir að viljayfirlýsingin í dag sé í samræmi við áherslu samstarfsvettvangsins og að hún sé enn eitt skref í átt að víðtæku samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins í baráttunni gegn loftlagsvandanum. Forsætisráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, og forstjórar Orkuveitu Reykjavíkur, Elkem, Fjarðaáls, Rio Tinto á Íslandi og Norðuráls undirrituðu öll undir viljayfirlýsinguna í dag. Auk þess stendur PCC á Bakka að yfirlýsingunni en mun undirrita yfirlýsinguna síðar.
Hvati fyrir álverin að nota CarbFix-aðferðina
Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður kannað til hlítar hvort að CarbFix-aðferðin geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til þess að draga úr losun koldíoxíðs frá stóriðju á Íslandi. Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað CarbFix-aðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila frá árinu 2007. Aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500 til 800 metra dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda.
Árið 2010 setti Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, reglur um losun á brennisteinsvetni sem varð til þess að Hellisheiðavirkjun þurfti annað hvort að fjárfesta í mjög dýrum hreinsibúnaði eða þróa aðrar aðferðir með einhverjum hætti. Virkjunin tók því þátt í CarbFix-verkefninu og hefur Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, rekið lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun síðustu fimm ár.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði í viðtali við Kjarnann í apríl síðastliðnum að árið 2017 losaði Hellisheiðavirkjun við 34 prósent af loflagsútblæstrinum hjá sér niður í jarðlög með CarbFix-aðferðinni. „Það er ekkert sem bendir til þess að það gufi upp – heldur séu efnin bara þar. Kostnaðurinn við þetta hjá þeim er sambærilegur við verðið á losunarheimildunum sem þessi fyrirtæki, eins og álverin og flugfélögin, þurfa að kaupa. Fyrir álverin, sem eru með útblástur út um stromp, þá er í rauninni kominn ákveðinn hvati fyrir þau að dæla efnunum ofan í jörð. Vissulega þurfa þau borholu en þá fer þetta að verða möguleiki fyrir þau vegna þess að kerfið er alltaf að herða að þeim og verðið á losunarheimildum hækkar,“ sagði Guðmundur Ingi.
Ekki draga úr CO2 heldur binda í miklu magni í bergi
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, bendir á í stöðufærslu á Facebook að í raun hyggst stóriðjan ekki draga úr losun CO2 líkt og segir í tilkynningu Stjórnaráðsins heldur binda það í miklu magni í bergi.
„CarbFix“ geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til þess að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) frá...
Posted by Arni Finnsson on Tuesday, June 18, 2019