Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis samþykkti breytingartillögu minnihlutans við frumvarp til laga um Seðlabanka Íslands í dag. Minnihlutinn samanstendur af Oddnýju G. Harðardóttur, þingmanni og þingflokksformanni Samfylkingarinnar, Smára McCarthy, þingmanni Pírata, og Þorgerði K. Gunnarsdóttur, þingmanni Viðreisnar og formanni flokksins.
Í breytingartillögunni felst í fyrsta lagi að kröfur til hæfni fulltrúa í bankaráði Seðlabankans verði auknar, í öðru lagi að verkefni bankaráðs verði nánar skilgreind, í þriðja lagi að formennska fjármálaeftirlitsnefndar verði að jafnaði í höndum varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits í stað seðlabankastjóra, í fjórða lagi að fjallað skuli um árangur markmiða í ársskýrslu Seðlabankans, í fimmta lagi að fram skuli fara ytra mat á starfsemi Seðlabankans á fimm ára fresti og í sjötta lagi að innan tveggja ára frá gildistöku laganna skuli vinna skýrslu um reynsluna af starfi nefnda Seðlabankans með nánar tilgreindum hætti.
Vilja að ytra mat fari fram á fimm ára fresti
Varðandi ytra matið þá er lagt til að á fimm ára fresti skuli ráðherra fela þremur óháðum sérfræðingum á sviði peninga- og fjármálahagfræði að gera úttekt um hvernig Seðlabanka Íslands hefur tekist að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlits.
Jafnframt skuli litið til annarra þátta í starfsemi bankans, svo sem skipulags, verkaskiptingar og valdsviðs. Einn sérfræðinganna skuli hafa haldgóða þekkingu á íslensku efnahagslífi en hinir tveir skuli hafa víðtæka þekkingu og reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og rekstri seðlabanka utan Íslands.
Hefðu kosið að hafa frumvarpið öðruvísi
Oddný Harðardóttir segir í samtali við Kjarnann að þau í Samfylkingunni hafi gagnrýnt frumvarpið mikið en að þessi breytingartillaga sé ákveðinn öryggisventill. „Við hefðum kosið að hafa frumvarpið með öðrum hætti, en það var ekki í boði,“ segir hún. Þá hafi þau í minnihlutanum frekar viljað fara þá leið að koma með breytingartillögu og fá samþykki meirihlutans við henni.
Hún bætir því við að í framhaldinu verði að gæta vel að Seðlabankanum þegar hann er orðinn svo mikill og voldugur. „Hann á svo mikið undir trausti, hann á lítið annað,“ segir hún. Þá skipti miklu máli að bankinn starfi undir skýrum markmiðum og að gætt sé að því að orðsporið skaðist ekki.