Fjármálaeftirlitið, FME, hefur til skoðunar þá ákvörðun VR að draga til baka umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að eftirlitið muni rannsaka hvernig málið sé vaxið og hvort farið hafi verið eftir lögum, til að mynda hvort það séu rétt kjörnir stjórnarmenn sem taki ákvarðanir. Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt tilkynnt stjórnarformanni sjóðsins að eftirlitið telji að stjórnarmennirnir sitji áfram í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna þar til stjórnarfundur VR hefur verið haldinn.
Trúnaðarbrestur gagnvart stjórnarmönnum
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna síðastliðinn fimmtudag var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Fjármálaeftirlitið birti á vef sínum þann 19. júní áminningu í tilefni frétta um að stéttarfélag hefði til skoðunar að afturkalla umboð stjórnarmanna sem félagið hafði þegar tilnefnt í stjórn lífeyrissjóðs. Fjármálaeftirlitið benti því á þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi lífeyrissjóða samkvæmt lögum. Fjármálaeftirlitið telur að stjórnarmönnum lífeyrissjóða sé óheimilt að beita sér fyrir því að lífeyrissjóði séu nýttir í öðrum tilgangi en þeim sem lýst er í lögum um starfsemi lífeyrissjóða.
Fullkomlega lögleg aðgerð
VR svaraði í gær áminningu Fjármálaeftirlitsins og sagði aðgerðina vera löglega. „Þessa sneið fáum við frá Fjármálaeftirlitinu vegna þeirrar fullkomlega löglegu aðgerðar okkar að draga umboð núverandi stjórnarmanna okkar í Lífeyrissjóði verzlunarmanna til baka og skipa þar nýtt fólk eins og er okkar hlutverk og ábyrgð,“ segir í svari VR.
„Þegar stjórnarmenn VR í lífeyrissjóðnum standa að ákvörðun sem gengur þvert gegn þessari sátt og mikilvægu stefnu VR og hækkar vexti á íbúðalánum, þrátt fyrir að vextir á markaði hafa lækkað, situr VR ekki þögult hjá.“
Í svarinu segir jafnframt að Fjármálaeftirlitið hljóti að eiga að haga sínu eftirliti þannig að hagsmunir neytenda séu varðir. „Hvernig væri nú að Fjármálaeftirlitið sinnti þessum skyldum og gætti hagsmuna lántakenda eins og þeir gæta hagsmuna fjármagnseigenda?“
Í svari VR er jafnframt tekið fram að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna eru og hafa verið skipaðir af þeim aðilum sem að sjóðnum standa en ekki verið kosnir á ársfundi eða á sjóðsfélagsfundi.
Eiga einungis að starfa eftir eigin samvisku
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í samtali við Fréttablaðið að stjórnarformenn séu sjálfstæðir í vinnubrögðum og þeir sem tilnefni í stjórnir eigi ekki að segja stjórnarmönnum fyrir verkum. „Þeir eiga einungis að starfa eftir eigin samvisku og þeim lögum sem eru í gildi,“ segir hún.
Unnur segir jafnframt að stjórnarmenn eigi almennt rétt á að sitja í stjórn séu þeir kosnir með löglegum hætti á aðalfundi. Því verður að gera ráð fyrir að ákveði stjórnarmaður að víkja úr sæti taki varamaður, sem þegar hefur verið kosinn á aðalfundi, sæti hans.
„Við munum vanda til verka við að rannsaka hvernig málið er vaxið og hvort farið hafi verið að lögum, til að mynda hvort það séu rétt kjörnir stjórnarmenn sem taki ákvarðanir. Það er mikilvægt einkum þegar um er að ræða ríka almannahagsmuni eins og rekstur lífeyrissjóðs,“ segir Unnur
FME telur að stjórnin sitji áfram
Ólafur Reimir Gunnarson, einn þeirra stjórnarmanna sem sat í umboði VR í stéttarfélagi Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fjármálaeftirlitið hafi tilkynnt honum að hann sé enn stjórnarformaður sjóðsins. „FME er búið að hafa samband við mig og telur að við sitjum áfram í stjórninni þar til stjórnarfundur hafi verið haldinn hjá VR. Maður kærir sig auðvitað ekki um að sitja í óþökk fólks en það er alvarlegt ef verið er að brjóta lög,“ segir Ólafur Reimar.
Ólafur segir jafnframt í samtali við blaðið að fráfarandi stjórn hafi leitað álits lögfræðings. Það liggi vonandi fyrir í næstu viku. Guðrún Hafsteinsdóttir, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna segir auk þess í samtali við Morgunblaðið að lögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna væri að skoða réttmæti ákvörðunarinnar. „Ég get einnig staðfest að við erum að láta óháðan sérfræðing í félagarétti skoða hvort hægt sé að gera þetta með þessum hætti sem gert var.“
Ragnar Þór Ingólfsson segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið að reglurnar séu skýrar um að Fulltrúaráð VR megi afturkalla umboð stjórnamma hvenær sem það vill. „Við erum í fullum rétti að gera þetta, reglurnar eru alveg kýrskýrar. Fulltrúaráð VR má afturkalla umboð stjórnarmanna hvenær sem það vill, það eru reglurnar sem við höfum og það er enginn ágreiningur um það innan okkar raða,“ segir Ragnar Þór.