Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út stjórnendastefnu ríkisins sem er fyrsta heildstæða stefnan um starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana, ráðuneytisstjóra og annara sem hafa stjórnun að meginstarfi hjá ríkinu. Í stefnunni segir að búa þurfi stjórnendum umhverfi þar sem eftirsóknarvert er að starfa og tækifæri gefst til að eflast og þróast í starfi. Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára en samkvæmt henni er áætlað að innleiða frammistöðumat fyrir alla stjórnendur ríkisins sem mun hafa áhrif á launasetningu þeirra.
Eftirsóknarvert starfsumhverfi fyrir stjórnendur
Í janúar á þessu ári tók gildi breytt launafyrirkomulag forstöðumanna ríkisins sem hluti af nýju starfsumhverfi stjórnenda. Nú byggist launaröðun starfa forstöðumanna ríkisins á samræmdu matskerfi þar sem störf þeirra eru metin með sambærilegum hætti. Grunnmat starfa skiptist í fjóra þætti út frá hlutverki og eðli stofnunar, færni, ábyrgð, stjórnun og umfang.
Þetta breytta launafyrirkomulag er hluti af nýrri stjórnendastefnu ríkisins sem miðar að því að bæta færni stjórnenda og gera ríkið að eftirsóknarverðum vinnustað. Í stjórnendastefnunni sem birt var í gær, segir að liður í því að bæta stjórnendafærni hjá ríkinu er að skilgreina hæfniskröfur sem gerðar eru til stjórnenda.
Í stefnunni eru þær hæfniskröfur skilgreindar í kjörmynd stjórnenda en samkvæmt stefnunni má nota kjörmyndina á ýmsa vegu, til dæmis við skilgreiningu á hæfnisþáttum við ráðningar og leiðbeiningar fyrir nýja stjórnendur. Kjörmyndin á einnig að nýtast við mat á frammistöðu og ákvörðun um frekari starfsþróun stjórnenda hjá ríkinu.
Frammistöðulaunin verða greidd samkvæmt reglum um viðbótarlaun
Í stefnunni er lögð áhersla á mikilvægi þess að ríkið bjóði stjórnendum upp á samkeppnishæft starfsumhverfi. Það felist meðal annars í því að laun þróist í samræmi við hæfni og frammistöðu. Auk þess segir í stefnunni að laun og almenn starfskjör stjórnenda ríkisins skuli byggjast á hlutlægum mælikvörðum og endurmetin í takt við almenna þróun.
Með stefnunni fylgir jafnframt aðgerðaáætlun fyrir árin 2019 til 2021. Framkvæmd aðgerðaáætlunar er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðuneytisins en um hverja aðgerð er stofnaður vinnuhópur með þátttöku ráðuneyta, forstöðumanna og annarra fagaðila eftir því sem við á.
Á meðal aðgerða í áætluninni er að leggja á mat á launakerfi forstöðumanna fyrir árið 2022 og innleiða frammistöðumat fyrir alla stjórnendur ríkisins sem mun hafa áhrif á launasetningu. Frammistöðumatið verður byggt á kjörmynd stjórnendastefnunnar og þeim hæfniskröfum sem þar koma fram, samkvæmt svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Nánari útfærsla frammistöðumatsins verður hins vegar verkefni eins aðgerðahóps sem vinna mun í samræmi við aðgerðaáætlunina sem fylgir stefnunni. Sá hópur hefur störf í ágúst.
Í svari ráðuneytisins kemur jafnframt fram að frammistöðulaunin verða greidd samkvæmt reglum um greiðslu viðbótarlauna forstöðumanna ríkisins. Í svarinu segir þó að núna sé ekki hægt að segja til um hversu mikil heildaráhrif frammistöðumatið muni hafa á launasetningu stjórnenda en í reglunum um viðbótarlaun segir að: „Fjárhæð viðbótarlauna skal rúmast innan fjárveitingar viðkomandi stofnunar og byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera í takt við tilefni og í samræmi við aðstæður.“
Fjöldi forstjóra ríkisfyrirtækja hækkuðu í launum í fyrra
Í lok árs 2016 samþykkti Alþingi að færa ákvörðunarvald yfir launum ríkisforstjóra undan kjararáði og til stjórna ríkisfyrirtækjanna. Sú breyting tók gildi í júlí 2017. Benedikt Jóhannesson, sem þá var fjármála- og efnahagsráðherra, sendi bréf til stjórna allra fyrirtækja í ríkiseigu í aðdraganda breytinganna og bað stjórnir að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf. Í bréfinu stendur að ástæða hafi verið til þess að „vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launaákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi. Æskilegt er að launaákvarðanir séu varkárar, að forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun.“
Í febrúar á þessu ári vakti það hins vegar mikla athygli þegar greint var frá því að laun bankastjóra Landsbankans hefðu hækkað um 82 prósent frá því starfið færðist undan kjararáði árið 2017. Landsbankinn er í 98,2 prósent eigu íslenska ríkisins. Auk þess greindu fjölmiðlar frá því að bankastjóri Íslandsbanka væri með 4,2 milljónir króna í mánaðarlaun, en laun hennar voru lækkuð um 14,1 prósent í nóvember 2018 eftir að hún fór fram á það við stjórn bankans, sem varð við því. Launin fóru úr um 4,8 milljónum á mánuði, niður í 4,2 milljónir. Laun bankastjóra Íslandsbanka voru hins vegar enn um 400 þúsund krónum hærri en hjá bankastjóra Landsbankans. Íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka,
Í kjölfarið sendi Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, bréf til Bankasýslu ríkisins þar sem hann óskaði þess að hún komi því með afdráttarlausum hætti á framfæri við stjórnir ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans að „ráðuneytið telji að bregðast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með tafarlausri endurskoðun launaákvarðana og undirbúningi að breytingum á starfskjarastefnum, sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.“ Í bréfinu sagði ennfremur að það væri mat ráðuneytisins að bankarnir hefðu með launaákvörðunum fyrir æðstu stjórnendur ekki virt þau tilmæli sem beint var til þeirra í upphafi árs 2017.
Bjarni sendi jafnframt bréf til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu í febrúar þar sem óskað var eftir upplýsingum um launaákvarðanir og starfskjör framkvæmdastjóra. Í svörum við bréf ráðherra kom meðal annars fram að laun forstjóra Íslandspósts höfðu hækkað um tæp 43 prósent frá miðju ári 2017, þegar ákvörðun um laun hans var færð frá kjararáði til stjórnar Íslandspósts. Auk þess hækkuðu heildarlaun forstjóra Isavia um 43,3 prósent frá því að ákvörðun launa var færð frá kjararáði og laun forstjóra Landsnets hækkuðu um 37,2 prósent frá árinu áður.