Persónuvernd er helsta áhersla nýrrar útgáfu Vivaldi vafrans, ásamt því að hægt er að loka á auglýsingar sem teljast „ótilhlíðilegar og truflandi,“ að því er kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins.
Í tilkynningunni segir að ný auglýsingasía loki á truflandi auglýsingar „sem nota tæknina á óviðeigandi hátt og eru hannaðar til þess að villa um fyrir fólki. Aðgerðin lokar á auglýsingar frá síðum sem valda notendum ónæði, eins og til dæmis sprettigluggar sem koma í veg fyrir að hægt sé að yfirgefa síðu.“
Enn fremur verður komið í veg fyrir að auglýsingar taki yfir skjái notenda eða færi þá yfir á annan stað og reyni þannig að fiska eftir persónuupplýsingum.
Jón von Tezchner, stofnandi Vivaldi, segir að aðgerðin sem notuð er til að virkja aðgang vafrans að svokölluðum lokunarlista sem dulkóðaður er hjá Vivaldi sé skref í þá átt að treysta ekki á þjónustur þriðja aðila, að því er segir í tilkynningunni.