Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra vill selja Íslandspóst til einkaaðila við fyrsta tækifæri. Hann segir að þegar umbætur á lagaumgjörð og breytingar á rekstri Íslandspóst fari að skila árangri þá sé ekkert því til fyrirstöðu að ríkið selji reksturinn. Þetta kemur fram í samtali Bjarna við Fréttablaðið í dag.
Fjárfestingar Íslandspósts of miklar
Íslandspóstur greindi frá því á þriðjudaginn að viðamiklar skipulagsbreytingar væru framundan hjá fyrirtækinu. Framkvæmdastjórum fyrirtækisins hefur verið fækkað úr fimm í þrjá. Samhliða því hafa ýmsar skipulagsbreytingar verið gerðar innan fyrirtækisins en samkvæmt forstjóra Íslandspósts eru breytingarnar gerðar til draga úr rekstrarkostnaði fyrirtækisins og auka hagræðingu.
Á þriðjudaginn birti Ríkisendurskoðun jafnframt stjórnsýsluúttekt sína á Íslandspósti en þar kom fram að fjárhagsvandi Íslandspósts stafi meðal annars af því að dreifing pakkasendinga frá útlöndum hefur reynst félaginu kostnaðarsöm og samdráttur í bréfsendingum hefur ekki fengist að fullu bættur með hækkun á gjaldskrá. Auk þess voru heildarfjárfestingar félagsins á árinu 2018 of miklar miðað við greiðslugetu þess.
Í fyrra var rekstrarafkomu Íslandspósts neikvæð um 287 miljónir króna. Fjárhagsvandi Íslandspósts á árinu 2018 leiddi til þess að félagið stefndi í greiðsluvanda þegar viðskiptabanki þess lokaði fyrir frekari lánveitingar. Í kjölfarið fékk ríkissjóður heimild frá Alþingi í lok síðasta árs til að veita fyrirtækinu einn og hálfan milljarð í neyðarlán.
Í skýrslunni er haft eftir fjármála- og efnahagsráðuneytinu að það blasi við að ef Íslandspóstur hefði ekki farið í fjárfestingar á sama tíma og metfækkun varð í bréfasendingum og aukning á tapi í pakkasendingum þá hefði félagið líklega haft getu til að fá lán hjá viðskiptabanka til að leysa bráðalausafjárvandafélagsins í fyrra.
Á að vera að keppa á samkeppnisgrundvelli
Bjarni segist ekki ekki hafa náð að fara yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar sjálfur í samtali við Fréttablaðið. Hann segir hins vegar að af opinberri umfjöllun að dæma séu málefni Íslandspósts í góðum farvegi innan stjórnarinnar nú og margt af því sem tiltekið sé í skýrslunni tilheyri fortíðinni.
Bjarni segir jafnframt að það sé hans vilji að einkavæðing Íslandspósts eigi sér stað sem fyrst. Að hans mati hafa ekki verið aðstæður til þess undanfarin misseri eða ár vegna þess hvernig reksturinn hafi gengið. Hann segir hins vegar að nú þegar umbætur á lagaumgjörð um starfsemi Íslandspósts hafi verið komið í betra form og þegar nauðsynlegar breytingar á rekstri fyrirtæksins fari að skila árangri þá sé engin ástæða fyrir eignarhaldi ríkisins á fyrirtækinu.
„Þá er ég sérstaklega að vísa til þess að við höfum öll tök á verðlagningu þjónustunnar sem við viljum hafa, þessari grunnpóstþjónustu í landinu. Að öðru leyti getur hún bara farið fram á samkeppnisgrundvelli. Það er hluti af þeirri þjónustu sem ber sig ekki á samkeppnisgrundvelli og þá verður ríkið að gera þjónustusamning um það og í þeim þjónustusamningi getum við ákveðið þjónustustigið og verðlagningu. En að öðru leyti eigi þetta fyrirtæki bara að vera að keppa á samkeppnisgrundvelli, “ segir Bjarni.