Hvergi í íslenskri löggjöf er minnst á lén, hvorki í fjarskiptalögum né öðrum sérlögum er varða netið með einhverjum hætti. Landshöfuðlénum er útdeilt til allra ríkja og vísa til landfræðilegs uppruna. Hér á landi er hins vegar ekki að finna heildstæða löggjöf um landshöfuð lén Íslands .is eða önnur höfuðlén. Því hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birt áform um frumvarp til laga um landhöfuðlén Íslands í samráðsgáttinni.
Nú byggir framkvæmdin aðeins á reglum ISNIC
ISNIC var stofnað árið 1995 til að halda utan um rekstur á íslenska hluta Internetsins. Á kjörtímabilinu 1999 til 2003 var hlutur ríkisins í ISNIC seldur og þar með var aðkoma íslenskra stjórnvalda að stjórnun og rekstur landshöfuðlénsins .is. færð yfir til einkaaðila.
Í dag er aðeins eitt fyrirtæki, ISNIC, sem sinnir skráningu léna undir landshöfuðléninu .is. Á árunum 2010 til 2012 voru lögð fram þrjú frumvörp um landshöfuðlénið .is en frumvörpin náðu ekki fram að ganga en með þeim átti gera starfsemi ISNIC háða starfsleyfi.
Því er hér á landi ekki að finna heildstæða löggjöf um landshöfuðlénið .is og í raun hvergi minnst á lén í íslenskri löggjöf, hvorki í fjarskiptalögum né öðrum sérlögum er varða netið með einhverjum hætti. Í dag byggir framkvæmdin aðeins á reglum sem ISNIC hefur sjálft sett.
Landshöfuðlénið hefur áhrif á vörumerkið Ísland
Sveita-og samgönguráðuneytið leggur því nú til áform um lagasetningu þar sem lagt er til að samið verði nýtt frumvarp um landshöfuðlénið .is og að settar verði skýrar lágmarksreglur um skráningu léna undir landshöfuðléninu .is. „Líta verður á landshöfuðlénið .is sem mikilvægan innvið fyrir íslenskt samfélag og því verður að telja bæði tímabært og nauðsynlegt að sett verði lágmarks lagaumgjörð um skráningarstofu landshöfuðlénsins .is.,“ segir í lagaáforminu.
Auk þess segir í lagaáforminu að landshöfuðlénið .is hafi áhrif á vörumerkið Ísland enda hafi það beina skírskotun til Íslands og ímyndar þess útávið og innávið í samfélagslegu samhengi. Því segir að með því að gera starfsemi skráningarstofu háða opinberu eftirliti sé jafnframt stuðlað að auknu öryggi og trausti í notkun íslenska hluta internetsins og því að .is haldi áfram að vera traust lén.
Auk þess er gert ráð fyrir að settar verði skýrari reglur um úrlausn deilumála og að settur verði á fót fagráð um lénamál. Í áforminu er jafnframt bent á að flest nágrannaríki Íslands hafi sett lagaumgjörð um landshöfuðlén sín og skráningu léna undir þeim.