Rauði krossinn hefur lengi bent á það að æskilegast sé að umönnun umsækjenda um alþjóðlega vernd sé í höndum sveitarfélaga enda sé félagsleg þjónusta byggð upp á nærþjónustu í landinu öllu og því eðlilegt að aðstoð við þennan hóp sé með sama hætti og við aðra hópa í þjóðfélaginu.
Í svörum stofnunarinnar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að þær félagsþjónustur sem hafa sinnt þjónustunni hingað til hafi gert það með mikilli prýði og ekki sé nein ástæða til að ætla annað en að ef fleiri sveitarfélög bætist í hópinn verði sami metnaður þar að leiðarljósi. Nú eru einungis þrjú sveitarfélög með slíka þjónustusamninga: Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbær og Reykjanesbær.
Rauði krossinn telur því mjög jákvætt að fleiri umsækjendur um alþjóðlega vernd dveljist í umsjón sveitarfélaga á meðan á málsmeðferð stendur. Útlendingastofnun sendi bréf um miðjan mars síðastliðinn til allra sveitarfélaga á landinu til að kanna áhuga þeirra á að gera samning við stofnunina um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sambærilega við þá sem stofnunin hefur nú þegar gert við fyrrnefnd sveitarfélög. Ekkert þeirra sveitarfélaga sem svarað hefur erindinu taldi sig að svo stöddu í stakk búið til að bætast í hóp sveitarfélaga sem veita umsækjendum um vernd þjónustu en mörg þeirra hafi þó lýst yfir jákvæðri afstöðu til verkefnisins, samkvæmt Útlendingastofnun.
Ísabella Ósk Másdóttir, sérfræðingur á kynningarsviði Rauða krossins, segir að mikilvægast sé að þjónustan sé sambærileg óháð því hver veitir hana og því skipti í raun ekki máli í hvaða sveitarfélagi fólk býr. Mismunur í þjónustustigi sé alltaf áskorun líkt og er núna þar sem þjónusta sveitarfélaganna er á mun breiðari grunni en þjónustan sem Útlendingastofnun veitir.
Ef aðgengi er skert getur fólki liðið verr
„Það hafa verið gerðar kannanir hjá Rauða krossinum sem gefa vísbendingar um að staðsetning geti haft áhrif á líðan fólks á meðan á málsmeðferð stendur. Það sem er lykilatriði þar, er aðgengið að þjónustu, þ.e. ef aðgengið er skert þá upplifir fólk staðsetningu mögulega sem einangrun og það hefur neikvæð áhrif á líðan og öryggistilfinningu,“ segir Ísabella. En ef þjónustan er góð þá líði fólki eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Þau hjá Rauða krossinum sjái til að mynda að fólk sem býr hjá félags- og fjölskylduþjónustu Reykjanesbæjar kvarti ekki undan staðsetningu þar sem öll sú þjónusta sem þau þurfa sé í nærumhverfinu.
„Það er nefnilega lykillinn að vellíðan að fólk fái upplýsingar, finni fyrir öryggi og fái nauðsynlega þjónustu eins og félagslegan stuðning og heilbrigðisþjónustu,“ segir hún en bætir því við að ekki sé þó hlaupið að því að færa umsækjendur um alþjóðlega vernd of langt frá þeim stöðum þar sem málsmeðferðin fer fram á meðan á málsmeðferð stjórnvalda stendur því það skapi þessa raunverulegu fjarlægð sem sé ekki af hinu góða. Öðru máli gegni þegar fólk er komið með vernd og er að taka sín fyrstu skref út í samfélagið. Þá skipti staðsetningin ekki lengur höfuðmáli heldur nærsamfélagið og möguleikar sem fólk hefur til að taka þátt.