Reykjanesbær hefur boðist til að kynna reynslu sína af þónustusamningum við umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrir öðrum sveitarfélögum en þeir hafa gefist vel í bænum. Útlendingastofnun hyggst ræða það við dómsmálaráðuneytið hvernig best megi standa að slíkri kynningu fyrir önnur sveitarfélög en ekki er komin tímasetning á hana.
Útlendingastofnun sendi bréf um miðjan mars síðastliðinn til allra sveitarfélaga á landinu til að kanna áhuga þeirra á að gera samning við stofnunina um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sambærilega við þá sem stofnunin hefur nú þegar gert við Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ.
Í svari Útlendingastofnunar við fyrirspurn Kjarnans kemur fram að ekkert þeirra sveitarfélaga sem svarað hefur erindinu taldi sig að svo stöddu í stakk búið til að bætast í hóp sveitarfélaga sem veita umsækjendum um vernd þjónustu en mörg þeirra hafi þó lýst yfir jákvæðri afstöðu til verkefnisins.
Ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar, segir í samtali við Kjarnann að mikilvægt sé að sveitarfélög geri þessa þjónustusamninga við Útlendingastofnun. „Það er fyrst og fremst til að tryggja að hægt sé að mæta einstaklingunum í nærumhverfi þeirra og það gerum við með því að hafa dreifinguna betri. Þetta eru ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir.“
Hún telur að sveitarfélögin verði að sjá ávinning þess að gera slíka samninga en að hennar sögn er hann mikill bæði fyrir umsækjendurna sjálfa og samfélagið. „Þessir einstaklingar hafa nefnilega gefið okkur mikið.“
Mikill samfélagslegur ávinningur
Halldóra veltir því fyrir sér hvort heppilegt sé að tugir, jafnvel hundruð, manna séu í einu eða tveimur húsum, eins og raunin er í Reykjanesbæ á vegum Útlendingastofnunar. „Með því að þjónusta minni hópa þá eru meiri líkur á að þörfum einstaklinganna sé mætt.“ Hún bendir á að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem búa í þessum tveimur húsum séu ekki hluti af þjónustusamingi við Reykjanesbæ og því geti þeir ekki leitað þjónustu til sveitarfélagsins.
„Við fengum fulltrúa dómsmálaráðuneytisins til fundar við okkur og buðum fram krafta okkar til að móta skýrari stefnu. Okkur hefur gengið vel hér; við erum með margar fjölskyldur þar sem börnin ganga í skóla og leikskóla og við reynum að sinna þessari þjónustu eins vel og við getum,“ segir Halldóra og bætir því við að þau sjái mikinn samfélagslegan ávinning að hafa hælisleitendur í bænum. „Við lærum líka af þeim og það myndast vinátta og samkennd. Við græðum öll á þessu,“ segir hún.
Samkvæmt Halldóru hefur dómsmálaráðuneytið tekið vel í tillögur þeirra og vonast hún til að það muni leita til þeirra í náinni framtíð. „Við þurfum öll að huga betur að sálgæslu og þátttöku einstaklinga í samfélaginu. Það er alls ekki kvöð að sinna þessum málaflokki eða uppfylla þjónustusamninginn,“ segir hún.