Fjármálaeftirlitið hefur beint því með dreifibréfi til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar með það að leiðarljósi að skýra hvort og þá við hvaða aðstæður sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna sem kjörnir/tilnefndir hafa verið, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Fjármálaeftirlitsins.
Greint var frá því í síðustu viku að Fjármálaeftirlitið hefði til skoðunar þá ákvörðun VR að draga til baka umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Í tilkynningu FME ,sem birt var í dag, segir að afturköllun „á tilnefningu stjórnarmanna sjóða sem byggir á ósætti tilnefningaraðila við einstakar ákvarðanir stjórnar getur talist tilraun til beinnar íhlutunar í stjórnun lífeyrissjóða, sem með óbeinum hætti færir ákvörðunarvald frá stjórn lífeyrissjóðsins. Slíkt vegur að sjálfstæði stjórnar og gengur í berhögg við almenn sjónarmið um góða stjórnarhætti.“
Enn fremur segir Fjármálaeftirlitið að val stjórnarmanna fari eftir ákvæðum í samþykktum lífeyrissjóða sem séu þó „almennt hljóðar um hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Óskýrar samþykktir hvað þetta varðar gera ferli við val og mögulega afturköllun á umboði stjórnarmanna ógagnsætt.“
Tryggja verður sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða
„Góðir stjórnarhættir eru mikilvægir í starfsemi lífeyrissjóða og er víða fjallað um þá m.a. í lögum um um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða samþykktum, starfsreglum stjórna og stjórnarháttaryfirlýsingum margra íslenskra lífeyrissjóða,“ segir einnig í tilkynningunni.
Í tilkynningunni segir jafnframt að í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar undanfarna daga, mismunandi aðferða við val á stjórnarmönnum milli sjóða og til að koma í veg fyrir óvissu til framtíðar, þá beini Fjármálaeftirlitið því til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar varðandi hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Að mati Fjármálaeftirlitsins sé við skoðunina jafnframt nauðsynlegt að taka mið af góðum stjórnarháttum og tryggja að sjálfstæði stjórna lífeyrissjóða verði ekki skert.
Umboð stjórnarmanna VR afturkallað
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi. VR hefur lýst því yfir að þessi aðgerð félagsins sé fullkomlega lögleg.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í stöðufærslu á Facebook fyrr í vikunni að það væri ekkert í lögum sem banni sér og stjórn VR að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum. Hann benti á að stjórnarmenn í LIVE séu ekki kosnir á aðalfundi heldur skipaður af þeim aðilum sem að sjóðnum standa. „Ég treysti því fólki, sem fulltrúaráðið valdi, fullkomlega til að taka málefnalega og sjálfstæða afstöðu í þeim málum sem kunna að koma á borð stjórnarinnar fram að þeim tíma.“
Hann sagði jafnframt líklega væri það eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint. Þannig væri hægt að aftengja atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna sem hann segir að sé í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseiganda.