Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður bankans, og Magnús Guðmundsson, fyrrum bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru sýknaðir í CLN-málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að því er kemur fram í frétt RÚV.
CLN-málið snýst um meint stórfelld umboðssvik upp á 72 milljarða króna út úr Kaupþingi. Í september síðastliðnum vísaði fjölskipaður héraðsdómur málinu frá. Ástæðan var að rannsókn málsins væri ófullnægjandi og að héraðssaksóknari hafi ekki orðið við fyrirmælum Hæstaréttar um að rannsaka málið betur. Frá þessu var greint á vef RÚV.
Þar segir að við rannsókn málsins hafi héraðssaksóknari ekki leitað til Deutche Bank eða skiptastjóra tveggja aflandsfélaga til að fá upplýsingar sem skipti höfuðmáli við úrlausn sakamálsins. Þess í stað hafi hann einungis leitað til Kaupþings ehf. og tekið skýrslu af lögmanni sem vann fyrir Deutsche Bank. Það væri ekki fullnægjandi.
Magnúsi Guðmundssyni er gefin að sök hlutdeild í brotum Hreiðars Más og Sigurðar, en í ákærunni er lýst með hvaða hætti sá banki hafi tekið þátt í framkvæmd kaupanna á hinum lánshæfistengdu skuldabréfum.
Með þessu voru ákærðu taldir hafa stefnt fé Kaupþings banka hf. í verulega hættu. Í ákærunni segir jafnframt um öll lánin, en þau námu samtals 510 milljónum evra, að þau hafi ekki verið greidd til baka og lánsféð yrði að teljast Kaupþingi banka hf. glatað. Ákærðu voru upphaflega sýknaðir í héraði en þeirri niðurstöðu áfrýjað til Hæstaréttar af hálfu ákæruvaldsins. Hann vísaði málinu aftur heim í hérað til efnismeðferðar.
Málið hefur hringlast í dómskerfinu
CLN-málið hefur hringlast í dómskerfinu þar sem í fyrstu atrennu voru allir ákærðu sýknaðir fyrir Héraðsdómi, málinu var síðar aftur áfrýjað til Hæstaréttar en nýjar upplýsingar um að Deutsche Bank í London hefði greitt þrotabúi háar fjárhæðir bárust áður en það var tekið fyrir í Hæstarétti að nýju. Hæstiréttur taldi að rannsaka þyrfti málið betur og var því sýknudómurinn í héraði ómerktur og vísað til löglegrar meðferðar á ný. Hérað vísaði því frá og sú niðurstaða var kærð til Landrettar sem vísaði því aftur í hérað.
Kjarninn hefur áður fjallað um málið, þar sem kom fram að með greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar á sínum tíma fylgdi samkomulag, sem gert hafði verið 12. desember 2016 milli Kaupþings ehf. sem er félag sem sér um umsýslu eigna Kaupþings banka hf. eftir að slitum á bankanum lauk, og Deutsche Bank í London.
Með samkomulaginu luku aðilar þess ágreiningi sem rekinn hefur verið fyrir ýmsum dómstólum um kröfur Kaupþings ehf. á hendur Deutsche Bank AG um greiðslur vegna þeirra lánshæfistengdu skuldabréfa sem ákæra í málinu tekur til. Með samkomulaginu skuldbatt bankinn sig til þess að greiða Kaupþingi ehf. 212,5 milljónir evra gegn því að fallið verði frá málarekstrinum.
Fram kom einnig að annað samkomulag með áþekku efni hafi verið gert við félögin Chesterfield United Inc. og Partridge Management Group SA, en þau voru kaupendur að þeim lánshæfistengdu skuldabréfum sem um ræðir í ákæru og þágu beint eða óbeint lán til þess frá Kaupþingi banka hf.
Deutsche Bank AG mun samkvæmt því samkomulagi einnig hafa skuldbundið sig til þess að greiða þeim félögum 212,5 milljónir evra, en að Kaupþing ehf. muni við uppgjör einnig fá um 90 prósent af þeirri fjárhæð. Samkvæmt þessu hefur Deutsche Bank AG skuldbundið sig til þess að greiða 425 milljónir evra vegna þeirra lána sem Kaupþing banki hf. veitti og ákæra tekur til og námu samtals 510 milljónum evra.
Fjallað var um efnisatriði þessarar formhliðar málsins á vef Hæstaréttar á sínum tíma. Þar sagði: „Það er skilyrði þess að sakfellt verði fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga að ákærður maður hafi haft tiltekna aðstöðu til þess að skuldbinda annan mann eða lögaðila, að hann hafi misnotað þessa aðstöðu sína og með því valdið þeim, sem hann skuldbatt, verulegri fjártjónshættu. Þar sem ákæra í málinu er reist á þeim grundvelli að lánin sem Kaupþing banki hf. veitti eignarhaldsfélögum þeim sem í ákæru greinir, samtals að fjárhæð 510.000.000 evrur, hafi ekki greiðst til baka og séu Kaupþingi banka hf. glötuð, en nú hefur verið lagt fram samkomulag sem felur í sér að Deutsche Bank AG hefur skuldbundið sig til að greiða 425.000.000 evrur af þeirri fjárhæð hefur Hæstiréttur tekið ákvörðun um að nauðsynlegt verði að sakamálið gegn ákærðu verði í fyrstu umferð að minnsta kosti flutt um tvö atriði, sem lúta að formi þess.“