Rannsókn yfirvalda í Lúxemborg á stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna Lindsor-málsins svokallaða er að ljúka. Rannsóknargögn verða send til ríkissaksóknara í Lúxemborg sem tekur ákvörðun um hvort að ákæra verði gefin út. Þetta staðfesti fjölmiðlafulltrúi rannsóknardómarans í Lúxemborg í samtali við Morgunblaðið.
Lindsor-málið svokallaða
Lindsor-málið snýst um 171 milljónir evra lán sem Kaupþing veitti félagi sem heitir Lindsor Holding Corporationog er skráð til heimilis á Tortóla-eyju. Lindsor var í eigu Otris, félags sem stjórnendur Kaupþings stýrðu og virkaði sem nokkurs konar afskriftasjóður utan efnahagsreiknings Kaupþings.
Lánið var veitt 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland. Þann dag lánaði Seðlabanki Íslands líka Kaupþingi 500 milljónir evra í neyðarlán.
Þremur dögum síðar var Kaupþing fallinn. Lánið til Lindsor var aldrei borið undir lánanefnd Kaupþings. Það var notað til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum þess banka og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar, vildarviðskiptavinar Kaupþings.
Í greinargerð sérstaks saksóknara sem fylgdi gæsluvarðhaldsúrskurði yfir Magnúsi Guðmundssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings í Lúxemborg, í maí 2010, segir að „tilgangur viðskiptanna hafi verið sá að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfanna af eigendum þeirra og yfir á Kaupþing á Íslandi“. Þar sagði einnig að gögn bendi til þess að Lindsor hafi keypt skuldabréfin á mun hærra verði en markaðsverði.
Þegar Kaupþing féll þremur dögum eftir kaupin á bréfunum var ljóst að Lindsor gat ekki greitt lánið til baka, enda eina eign félagsins verðlitlu skuldabréfin sem félagið hafði keypt þremur dögum áður. Engar tryggingar voru veittar fyrir láninu. Þeir sem seldu bréfin losuðu sig hins vegar undan ábyrgðum og rannsóknaraðilar telja að þeir hafi um leið tryggt sér mikinn ágóða. Þessu hafa Kaupþingsmenn hins vegar alltaf hafnað.
Ákveður hvort að ákæra verði gefin út
Lindsor-málið hefur því verið til rannsóknar, bæði hjá yfirvöldum á Íslandi og í Lúxemborg, í áratug. Yfirvöld í Lúxemborg komu til landsins árið 2016 til að yfirheyra Íslendinga í tengslum við málið. Á meðal þeirra var rannsóknardómari en rannsóknardómarar sjá um rannsókn sakamála í Lúxemborg. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun sá rannsóknardómari bráðlega skila rannsóknargögnum til ríkissaksóknara í Lúxemborg sem tekur síðan ákvörðun um hvort að ákæra verði gefin út.
Hefði verið betra að veita ekki lánið
Seðlabanki Íslands birti skýrslu um neyðarlán bankans til Kaupþings í maí síðastliðnum en skýrslan var rúm fjögur ár í vinnslu. Í formála skýrslunnar segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, að eftir á hyggja hefði verið betra að veita ekki lánið.
Jafnframt kemur fram í skýrslunni að að það liggi nú fyrir að ekki muni endurheimtast meira af láninu en sem nemur 260 milljónum evra, sem eru 37 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Árið 2014 hafði Seðlabanki Íslands gefið það út að um 270 milljónir evra myndu endurheimtast af láninu. Nú er ljóst að sú upphæð hefur skroppið saman.