Það sem af er ári hefur hagkerfi Kína vaxið um 6,3 prósent sem er í samræmi við 6 til 6,5 prósent hagvaxtarmarkmið kínverskra stjórnvalda árið 2019. Hagvöxtur á seinni ársfjórðungi var 6,2 prósent miðað við 6,4 prósent á þeim fyrri. Þetta kemur fram í frétt Xinhua, kínversks ríkismiðils.
The New York Times bendir á að hagvöxturinn sé sá lægsti í 27 ár. Bent er á að viðskiptastríð Kína við Bandaríkin gæti verið að hægja á hagvexti Kína. Enn fremur geti kólnandi heimshagkerfi hægt á útflutningi Kína, til að mynda til Evrópu og öðrum Asíuríkjum.
Einkaneysla eykst
Garðyrkjuræktun jókst um 3,9 prósent sem hefur aldrei verið meiri og hefur einkaneysla aukist um 8,4 prósent það sem af er ári. Atvinnuleysi í júlí stendur nú í 5,1 prósentum sem er 0,1 prósentustiga aukning frá mánuðinum áður. Atvinnuleysi meðal fólks á aldrinum 25 til 59 ára er 4,6 prósent.
Fjárfestingar í húsnæði hafa aukist um 15,8 prósent það sem af er ári og er það 0,5 prósentustiga lækkun frá því í fyrra. Miklar fjárfestingar eru í húsnæði í borgum vegna þeirra gífurlegu mannflutninga sem hafa átt sér stað í Kína úr sveitum í borgir á síðustu árum og áratugum.
Gífurlegum fjárhæðum varið í innviði
Kínversk yfirvöld fjárfesta nú gífurlegum fjárhæðum í að byggja upp innviði sína og fjárfesta í innviðum annarra landa. Það er hluti af innviða- og fjárfestingaverkefni forseta Kína, Xi Jinping, sem nefnist Belti og braut.
Með aukinni innviðabyggingu í bæði nær- og fjærríkjum Kína mun flutningageta aukast, þar með muni viðskipti Kína við önnur ríki aukast. Ýmsir fræðimenn hafa bent á að Kína vilji verða tæknivæddara og auka þróun ýmissa héraða sinna. Einkaneyslu þurfi einnig að auka til að halda uppi hagvexti ríkisins og muni þar að auki styrkja gjaldmiðil ríkisins.
Stærra net hafna í Indlandshafi mun einnig tryggja Kína aðgengi að sjóleiðum sem er bráðnauðsynlegt fyrir ríki eins og Kína sem byggir sinn efnahag að mestu á útflutningi.