Pólsk yfirvöld hafa afturkallað framsalskröfu á hendur pólskum manni, búsettum hér á landi, og fellt niður alþjóðlega handtökuskipun á hendur honum. Pólsk yfirvöld óskuðu fyrst eftir framsali mannsins í desember 2017 en hann sat þá í gæsluvarðhaldi hér á landi vegna rannsóknar á skipulagðri brotastarfsemi. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Ekki heimilt að framselja mann sem sætir gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar annars máls
Maðurinn er pólskur og er einn eigenda pólsku smásöluverslunarinnar Euro Market en þrjár verslanir undir því nafni hafa verið reknar á höfuðborgarsvæðinu. Pólsk yfirvöld óskuðu eftir því að maðurinn yrði framseldur til Póllands um miðjan desember 2017. Framsalsbeiðni pólskra yfirvalda byggði á því að pólsk yfirvöld höfðu til rannsóknar aðild mannsins að skipulagðri brotastarfsemi og ólöglegum flutningi fíkniefna milli landa.
Maðurinn sætti þá gæsluvarðhaldi hér á landi vegna umfangsmikillar rannsóknar lögreglu á fíkniefnainnflutningi, peningaþvætti, fjársvikum, brotum á vopnalögum, lyfjalögum og fíkniefnaframleiðslu. Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segist lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafa nú lokið rannsókn málsins og það verði nú sent ákærusviði.
Í byrjun október 2018 staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur ákvörðun dómsmálaráðherra um framsal mannsins til Póllands. Úrskurður héraðsdóms var hins vegar kærður til Landsréttur en verjandi mansins, Steinbergur Finnbogason, sagði að litið hefði verið fram hjá lögbundnum mannúðarsjónarmiðum í úrskurðinum en hann benti á þetta væri nánast eins og um framsal á Íslendingi væri að ræða enda hafi skjólstæðingur hans búið hér í meira en tíu ár, ætti hér konu og barn, eigin atvinnurekstur og ýmsar aðrar rætur til samfélagsins.
Síðar í sama mánuði sneri Landsréttur við úrskurði héraðsdóms og felldi úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra á grundvelli þess að samkvæmt framsalslögum væri ekki heimilt að framselja mann sem sæti gæsluvarðhaldi eða farbanni vegna rannsóknar annars máls en þess sem framsalsbeiðni byggir á.
Óhætt að fara til Póllands
Nú hafa pólsk yfirvöld hins vegar fellt niður alþjóðlega handtökuskipun á hendur manninum og dregið til baka kröfu um framsal mannsins frá Íslandi til Póllands. Steinbergur, verjandi mannsins, segir í samtali við Fréttablaðið, að skjólstæðingur hans hafi fengið það sem kallað er griðabréf frá pólskum yfirvöldum.
„Það þýðir að honum er óhætt að fara til Póllands og gefa skýrslu og eftir atvikum að koma svo aftur til Íslands,“ segir Steinbergur og bætir við að maðurinn þurfi að leggja út tryggingagreiðslu með loforði um að hann mæti til skýrslugjafar í Póllandi.
Steinbergur segir jafnframt að þetta mál sé orðið með algerum ólíkindum. „Bara þessi framsalshluti málsins hlýtur að hlaupa á tugum milljóna í kostnaði og svo fella Pólverjar það bara niður.”