Fjöldi kynferðisbrota er mun hærri en vanalega. Fjölgunina má rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum. Undanfarnar vikur hefur lögreglan unnið að sérstökum aðgerðum tengda mansali og er vændi ein af birtingarmyndum þess. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðunum.
Tilkynnt kynferðisbrot voru 37 talsins í júní og 46 í maí. Tilkynntum kynferðisbrotum fjölgaði miðað við síðastliðið hálft og heilt ár. Fjölgunin nemur 18 prósentum á tímabilinu.
Alls voru 698 hegningarlagabrot skráð á höfuðborgarsvæðinu í júní sem er fækkun á milli mánaða. Umferðarlagabrotum fjölgaði mikið eða um 26 prósent. 18 prósent fleiri voru grunaðir um ölvun við akstur en á sama tímabili síðustu þrjú ár. Í júní bárust jafnframt 309 tilkynningar um þjófnað.