Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðharra, vonast til að að frumvarp um jarðakaup útlendinga hér á landi verði tilbúið snemma í haust. Hann segir í samtali við Morgunblaðið í dag að lagabreytingar sem gerðar voru árin 2003 og 2004 hafi tekið niður allar „eðlilegar girðingar“ er varða jarðakaup. Hann segir jafnframt að sú þróun sem hafi átt sér stað síðustu ár sé alveg óviðunandi.
Óviðunandi þróun
Morgunblaðið greindi frá því í fyrradag að Fljótabakki ehf., íslenskt dótturfélag bandarísku ferðaþjónustufyrirtækisins Eleven Experience, hefði keyt jörðina Atlastaði í Svalfjarðardal. Síðasta haust bárust fregnir af því að Fljótabakki hefði keypt jörðina Hraun í Fljótum og hygðist koma þar upp ferðaþjónustu. Skömmu áður hafði félagið keypt land Nefstaða við Stífluvatn í Fljótum. Þá á félagið jarðirnar Knappsstaði, Steinavelli og Stóru-Brekku í Fljótunum, auk Depla.
Enn fremur var greint frá því fyrr í vikunni að félagið Sólstafir, í eigu breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, festi nýverið kaup á Jörðinni Brúarlandi 2 í Þistilfirði. Eftir kaupin eiga félög í eigu Ratcliffe meirihluta veiðiréttar í Hafralónsá, sem er vinsæl laxveiðiá í Þistilfirði. Félagið hefur undanfarin ár keypt fjölda jarða í Vopnafirði og Þistilfirði.
Sigurður Ingi segir þessa þróun síðustu ára vera alveg óviðunandi. „Þess vegna hafa stjórnvöld verið með það til skoðunar hvaða leiðir séu færar til að hafa þetta umhverfi með eðlilegri hætti og líkara því sem við þekkjum bæði í Noregi og Danmörku,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið, spurður um jarðakaup erlendra aðila, þar á meðal Atlastaði.
Frumvarp í haust
Í lok september í fyrra var skipaður starfshópur til að endurskoða lög um eignarhald á bújörðum. Starfshópurinn lagði meðal annars til að skilyrði yrði sett um að eigendur jarða byggju sjálfir á jörðinni og að erlendir eigendur þyrftu að hafa þar lögheimili.
Sigurður Ingi segir að nú sé vinna í gangi á vegum stjórnvalda í tengslum við tillögur starfshópsins en málefnið varðar marga lagabálka undir ólíkum ráðuneytum. Hann segist jafnframt að vonast sé eftir því frumvarp um jarðakaup verði tilbúið snemma í haust.
„Við erum að skoða hvaða breytingar þurfi að gera á ólíkum lagabálkum, því breytingarnar sem gerðar voru upp úr aldamótum, árin 2003 og 2004, tóku niður allar eðlilegar girðingar hvað þetta varðar og þessu verðum við að breyta,“ segir hann og bætir við „Mín skoðun er sú að við þurfum að ganga eins langt og við komumst.“
Mikill og breiður pólitískur vilji
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær að breiður pólitískur vilji væri til að takmarka jarðakaup auðmanna hér á landi. Það sé skýrt að ekki eigi að líta á land eins og hverja aðra vöru eða þjónustu.
„Þar er mitt svar alveg skýrt, það er nei við þeirri spurningu. Við getum ekki litið á land eins og hverja aðra vöru og þjónustu. Ég hef falið sérfræðingi að gera tillögur að lagabreytingum sem koma munu til kasta þingsins næsta vetur. Ég tel að það sé mikill og breiður pólitískur vilji til að setja strangari ramma um þessi mál hér á landi eins og við sjáum svo víða í nágrannalöndum okkar,“ sagði Katrín.