Kínverskum fjárfestingum í Bandaríkjunum hefur fækkað um 90 prósent frá því að Trump tók við sem forseti Bandaríkjanna. Fjárfestingunum hefur fækkað vegna strangari skilyrða í Bandaríkjunum gagnvart kínverskum fjárfestingum ásamt því að kínversk stjórnvöld hafa takmarkað eyðslu erlendis. Þetta kemur fram í frétt The New York Times.
Kína og Bandaríkin hafa í rúmlega eitt ár átt í viðskiptastríði þar sem strangari skilyrðum og tollum er komið á beggja vegna. Nú er viðskiptastríðið byrjað að hafa veruleg áhrif á beinar fjárfestingar í Bandaríkjunum. Samkvæmt fréttinni hefur fækkun kínverskra fjárfestinga til að mynda áhrif á sprotafyrirtæki í Kísildalnum og fasteignamarkaðinn í Manhattan. Kínverskir fjárfestar eru þó enn stærstu erlendu kaupendur bandarískra fasteigna.
Einangrunarhyggja hægir á heimshagkerfinu
Einangrunarhyggja í viðskiptum og aukinn efnahagslegur óstöðugleiki hægðu á hagkerfi heimsins árið 2018. Vöruviðskiptavöxtur var 3 prósent 2018 samanborið við 4,6 prósent árið 2017. Búist er við að sú þróun haldi áfram árið 2019, þar sem áætlaður vöruviðskiptavöxtur er 2,6 prósent. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (e. WTO).
Á meðan Bandaríkin halda sinni einangrunarstefnu til streitu er búist við enn frekari viðskiptahindrunum á Vesturlöndum þegar Bretar segja sig úr Evrópusambandinu.