Framkvæmdastjóri Google, Karan Bhatia, hefur nú formlega staðfest að hætt hafi verið við framleiðslu Dragonfly leitarvélarinnar sem er í fyrsta sinn sem það hefur verið staðfest opinberlega. Blaðamenn the Intercept ljóstruðu upp um leitarvélina, en áður hafði mikil leynd hvílt yfir verkefninu.
Skjölin sem blaðamennirnir komust yfir sýndu fram á að leitarvélin myndi koma í veg fyrir að hægt væri að skoða ákveðnar vefsíður og leitarorð um mannréttindi, lýðræði, trúarbrögð og friðsæl mótmæli. Í kjölfarið hefur Google verið harðlega gagnrýnt og gagnrýnendur bent á að leitarvélin gæti nýst kínverskum yfirvöldum til að stjórna hvað notendur gætu skoðað og lesið.
Auglýsing
Starfsmenn Google ósáttir við leitarvélina
Hundruð starfsmanna Google hafa skrifað undir opinbert bréf þar sem Dragonfly verkefnið er fordæmt. Starfsmennirnir vilja ekki að tækni verði notuð gegn fólki. Leitarvélin gæti orðið fordæmisgefandi og erfiðara yrði fyrir Google að neita öðrum ríkjum en Kína um hið sama. Þeir taka jafnframt undir gagnrýni mannréttindasamtakanna Amnesty International sem hafa fordæmt leitarvélina.
Íslandsdeild Amnesty International sendi tilkynningu frá sér í gær þar sem fagnað var að hætt hefði verið við Dragonfly. Íslandsdeildin tók málið upp í netákalli og SMS-aðgerðaneti í desember 2018 þar sem krafist var að fallið yrði frá verkefninu, að því er kemur fram í tilkynningunni. Samkvæmt Íslandsdeild Amnesty International átti kínverskum notendum Dragonfly að vera meinaður aðgangur að vefsíðum eins og Facebook og Wikipedia, auk þess sem leitarorð eins og „mannréttindi“ yrðu bönnuð.