Mun fleiri hafa heimsótt Fjölskyldu- og húsdýragarðinn það sem af er ári en í fyrra. Alls heimsóttu 100.600 manns garðinn á fyrstu sex mánuðum ársins en það eru um 32 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Nýr fallturn var tekinn í notkun í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í fyrra og unnið er að því gangsetja Sleggjuna svokölluðu í garðinum.
Fjölskyldu og húsdýragarðurinn opnaður fyrir nærri þrjátíu árum
Borgarráð Reykjavíkur ákvað að byggja húsdýragarð í Laugardalnum í apríl árið 1986. Markmið borgarinnar með garðinum var að kynna Reykvíkingum íslensk húsdýr og færa borgarbúa nær íslenskum búskaparháttum. Húsdýragarðurinn var síðar opnaður af Davíð Oddssyni, borgarstjóri, þann 19. maí 1990. Þá voru í garðinum voru rúmlega tuttugu dýrategundir, bæði húsdýr og villt dýr.
Í kjölfar góðra viðtaka var ákveðið að bæta við aðstöðu fyrir fjölskyldur að verja tómstundum sínum sem nefndur var Fjölskyldugarðurinn og var opnaður þremur árum seinna. Garðarnir tveir, húsdýragarðurinn og fjölskyldugarðurinn, eru landfræðilega tengdir saman með brúnni Bifröst.
Í fyrra sumar opnaði nýr fallturn í garðinum, sem þykir gott aðdráttaafl á gesti, en einnig er stefnt að því að gangsetja skemmtitækið Sleggjuna, sem var forðum í Skemmtigarðinum í Smáralind, í garðinum sem fyrst. „Sleggjan hefur aldrei farið í gang. Það hefur verið unnið að því að koma henni í gang í allt sumar. Það þarf að uppfylla alls kyns öryggisatriði áður en hún fer í gang. Bæði þessi tæki eru viðkvæm og með fullt af skynjurum og nemum. Þegar eitthvað fer er svolítið flókið að komast að því hvað er að,“ sagði Sigrún Thorlacius, aðstoðarforstöðumaður Húsdýra- og fjölskyldugarðsins, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Heimsóknum í garðinn fjölgar á meðan ferðamönnum fækkar
Samkvæmt heimasíðu Fjölskyldu- og húsdýragarðsins heimsækja að meðaltali um 170 þúsund gestir garðinn árlega. Í maí síðastliðnum var hins vegar metaðsókn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn en alls sóttu 26 þúsund garðinn. Það er tvöfalt fleiri en heimsóttu garðinn í maí árið á undan en sá mánuður var versti í sögu garðsins.
Alls hafa rúmlega 100 þúsund manns heimsótt garðinn það sem af er ári, sem er um þrjátíu þúsund fleiri en sóttu garðinn á sama tímabili í fyrra.
Á sama tíma hefur ferðamönnum fækkaði ferðamönnum hér á landi um 12,4 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins samaborið við árið á undan. Í janúar fækkaði brottförum ferðamanna um 5,8 prósent, í febrúar um 6,9 prósent, í mars um 1,7 prósent, í apríl um 18,5 prósent, um 23,6 prósent í maí og loks 16,7 prósent fækkun í júní eða alls 39 þúsund færri ferðamenn en árið á undan.