Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að umræðan um sjálfvirknivæðingu innan fyrirtækja hafi staðið yfir í VR um nokkurn tíma. Hann segir að félagið ætli að vera í forystuhlutverki þegar kemur að umræðunni um fjórðu iðnbyltingu og sjálfvirknivæðinguna en segist jafnframt vonast eftir breiðu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og hins opinbera þegar kemur að þessu „risa stóra“ verkefni. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Stuðla að upplýstri umræðu um ógnir framtíðarinnar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, skipaði framtíðarnefnd Alþingis í júní fyrra en nefndin á að fjalla um helstu tækifæri og ógnanir Íslands í framtíðinni með tilliti til langtímabreytinga á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegra breytinga og þeirra hröðu umskipta sem eru í vændum með síaukinni sjálfvirkni og tæknibreytingum. Framtíðarnefnd Alþingis á enn fremur stuðla að upplýstri umræðu um tækifæri og ógnanir framtíðarinnar og verða virkur umræðuvettvangur um færi í framtíðinni.
VR hefur einnig sett á fót framtíðarnefnd sem taka mun til starfa í ágúst næstkomandi. Nefndin er stofnuð í ljósi fjórðu iðnbyltingunnar en meginhlutverk nefndarinnar er að gæta þess að fjórða iðnbyltingin verði ekki að aðeins atvinnurekendum til hagsbóta.
„Eftir því sem tækninni fleytir fram, á síauknum hraða, verður erfiðara að finna jafnvægi á vinnumarkaði,“ sagði Friðrik Boði Ólafsson, nefndarmaður í framtíðarnefnd VR, í samtali við Fréttablaðið fyrr í vikunni. Hann segir að fjöldi starfi muni glatast en önnur skapast í staðinn. Því sé nauðsynlegt að greina hvaða störf þetta eru og aðstoða starfsfólk að laga sig að því.
Barátta verkalýðshreyfingarinnar mun taka mið af fjórðu iðnbyltingunni
Í samtali við Fréttablaðið í dag segir Ragnar Þór að hann bindi miklar vonir við störf framtíðarnefndar VR en hann segir að sjálfvirkni og fjórðu iðnbyltinguna séu stærstu málin sem verkalýðshreyfingin standi frammi fyrir núna og að baráttan næstu árin muni taka mið að því.
„Okkar ætlun er að vera í forystuhlutverki. Til þess að geta haft áhrif þurfum við að taka þátt í þessari þróun í stað þess að ala á ótta við breytingar sem við höfum ekki stjórn á,“ segir Ragnar Þór. Hann segir jafnframt að vinna nefndarinnar muni skila sér í kröfugerð félagsins en að hann segist jafnframt vonast eftir breiðu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og hins opinbera í þessu risa stóra verkefni.
„Við munum taka vinnu þessarar nefndar og koma henni á framfæri innan Alþýðusambandsins og opinbera geirans. Við þurfum líka að fá sem flesta að þessu því þetta snertir svo margar starfsgreinar. Verkalýðshreyfingin má ekki sitja eftir sem áhorfandi,“ segir Ragnar Þór.
Ein af áskorununum VR er að endurmennta fjölda fólks og segir Ragnar að VR sé þegar byrjað á þeirri vinnu. Þar á meðal hafi verið komið á fót fagháskólanámi í verslunarstjórnun og verslun. Að lokum bendir Ragnar á að ef atvinnuleysi muni aukast gríðarlega í kjölfar mikilla tæknibreytinga þá sé nauðsynlegt að fara taka umræðuna um borgaralaun.
Borgarar þurfa að skynja ábatann af tæknibreytingum
Dr. Huginn Freyr Þorsteinsson, sérfræðingur hjá Aton og formaður starfshóps forsætisráðherra sem vann skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna og Íslands, sagði í viðtali í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í maí, að það þurfi að ríkja sátt í samfélaginu um þá tækniþróun sem sé framundan.
„Ef að fólk upplifir það þannig að það sé skilið eftir en samfélagið sem það býr í er allt orðið markað af þessum breytingum, þá verður ekki sátt um þessar breytingar. Þess vegna þarf að huga sérstaklega að dreifingu gæðanna,“ sagði Huginn.
Hann benti jafnframt á að hægt væri að læra af afleiðingum þeirra breytinga sem orðið hafa með síðustu iðnbyltingu, þar sem fjöldi starfa úreltist og ekki var tekið nægilega vel á samfélagslegum hliðarverkunum þess. Afleiðingin sé til dæmis sú mikla óánægja með stjórnmál sem birtist víða um heim í dag. „Það veikir lýðræðið og opna umræðu ef fólk upplifir að það sé skilið eftir, “ sagði Huginn.
Í starfshópnum sem tók skýrsluna saman voru auk Hugins þau Lilja Dögg Jónsdóttir, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður H. Magnúsdóttir og Kristinn R. Þórisson.