Fulltrúar VR afhentu Héraðsdómi Reykjavíkur stefnu á hendur Fjármálaeftirlitinu í dag. Stjórn VR samþykkti að stefna stofnuninni fyrir að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Mbl.is greinir fyrst frá.
„Markmiðið er fyrst og fremst að fá þennan úrskurð FME dæmdan ógildan,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is og vísar til þess að FME lítur svo á að ákvörðun um afturköllunina sé ekki gild þar sem hún hafi ekki, að mati stofnunarinnar, verið tekin af stjórn VR eins og samþykktir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gera ráð fyrir.
Greint var frá því í fréttum í byrjun júlí að FME teldi afturköllun á tilnefningu stjórnarmanna sjóða vega að sjálfstæði stjórna þeirra. Fjármálaeftirlitið hefur beint því með dreifibréfi til stjórna lífeyrissjóða að taka samþykktir sínar til skoðunar með það að leiðarljósi að skýra hvort og þá við hvaða aðstæður sé mögulegt að afturkalla umboð stjórnarmanna sem kjörnir/tilnefndir hafa verið.
Auk þess kom fram í tilkynningu frá Fjármálaefnirlitinu í byrjun júlí að samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skuli meðal annars kveða á um hvernig vali stjórnarmanna lífeyrissjóðsins og kjörtímabili þeirra skuli háttað. Hins vegar væri ekki frekar kveðið á um hvernig að tilnefningu eða kjöri skuli staðið eða hvort afturköllun sé heimil.
Enn fremur taldi Fjármálaeftirlitið að val stjórnarmanna færi eftir ákvæðum í samþykktum lífeyrissjóða sem væru þó „almennt hljóðar um hvort og þá við hvaða aðstæður umboð stjórnarmanna verði afturkallað. Óskýrar samþykktir hvað þetta varðar gera ferli við val og mögulega afturköllun á umboði stjórnarmanna ógagnsætt.“
Umboð stjórnarmanna VR afturkallað
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi. VR hefur lýst því yfir að þessi aðgerð félagsins sé fullkomlega lögleg.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í stöðufærslu á Facebook að það væri ekkert í lögum sem banni sér og stjórn VR að skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum. Hann benti á að stjórnarmenn í LIVE væru ekki kosnir á aðalfundi heldur skipaður af þeim aðilum sem að sjóðnum standa. „Ég treysti því fólki, sem fulltrúaráðið valdi, fullkomlega til að taka málefnalega og sjálfstæða afstöðu í þeim málum sem kunna að koma á borð stjórnarinnar fram að þeim tíma.“
Hann sagði jafnframt líklega væri það eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint. Þannig væri hægt að aftengja atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna sem hann sagði að væri í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseiganda.