Í lok annars ársfjórðungs 2019 bjuggu 360.390 manns á Íslandi, 184.810 karlar og 175.580 konur. Landsmönnum fjölgaði um 1.610 á ársfjórðungnum, eða um 0,4 prósent. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 230.360 manns en 130.030 utan þess.
Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar í dag.
Alls fæddust 1.030 börn, en 530 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 1.110 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 90 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.020 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu.
Samkvæmt Hagstofunni er Danmörk helsti áfangastaður brottfluttra íslenskra ríkisborgara en þangað fluttust 140 manns á öðrum ársfjórðungi. Alls fluttust 400 íslenskir ríkisborgarar frá landinu og af þeim fluttust 220 til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Af þeim 1.050 erlendu ríkisborgurum sem fluttust frá landinu fóru flestir til Póllands, 370 manns.
Pólland upprunaland flestra erlendra ríkisborgara
Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, samtals 310 manns af 490. Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 630 til landsins af alls 2.070 erlendum innflytjendum.
Litháen kom næst en þaðan fluttust 200 erlendir ríkisborgarar til landsins. Í lok annars ársfjórðungs bjuggu 46.720 erlendir ríkisborgarar á Íslandi, eða 13 prósent af heildarmannfjölda.