Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í forsætisnefnd Alþingis, segir í samtali við Kjarnann að nefndin sé að vinna að niðurstöðu í Klausturmálinu svokallaða. Þeirri vinnu sé ekki lokið en fundað verður um málið seinna í dag.
„Það eru margir áhugasamir um þetta en vinnan þarf að hafa sinn gang,“ segir Steinunn Þóra.
Hún segir enn fremur að ólíklegt sé að niðurstaða fáist eftir fundinn í dag en ómögulega sé þó að spá fyrir um það fyrir fundinn. „Við stefnum á að ljúka málinu.“
Tóku á móti andsvörum
Siðanefnd Alþingis kláraði álit sitt um Klausturmálið í síðustu viku og sendi í kjölfarið til forsætisnefndar. Þeir sex þingmenn sem náðust á upptöku fengu álitið til umfjöllunar og höfðu frest fram í lok síðustu viku til að skila andsvörum.
Fram kom á RÚV í gær að nefndin hefði tekið á móti andsvörum Klausturmanna við niðurstöðu siðanefndar en Steinunn Þóra vildi ekki tjá sig um hverjir það hefðu verið sem brugðust við.
Klausturmálið fór til siðanefndar Alþingis frá forsætisnefnd í lok maí síðastliðins. Steinunn Þóra og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru kjörin varaforsetar forsætisnefndar Alþingis í janúar síðastliðnum til þess að fjalla um Klausturmálið eftir að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, og allir varaforsetar úr hópi þingmanna, sögðu sig frá umfjöllun um Klausturmálið, vegna vanhæfis í lok síðasta árs.