Forsætisnefnd hefur á fundi sínum í dag lokið meðferð sinni á hinu svokallaða Klausturmáli. Það er niðurstaða forsætisnefndar að fallast beri á mat siðanefndar frá 5. júlí síðastliðnum. Þetta kemur fram í áliti forsætisnefndar sem birt var rétt í þessu.
Samkvæmt áliti siðanefndar Alþingis brutu Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn.
Auglýsing
Aðrir þingmenn sem tóku þátt í samtalinu, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmenn Miðflokksins, og Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem voru í Flokki fólksins þegar samtalið átti sér stað en gengu síðar til liðs við Miðflokkinn, brutu ekki gegn siðareglum, að mati nefndarinnar.
Mikið var fjallað um málið í fjölmiðlum í dag eftir að Morgunblaðið birti álit siðanefndar Alþingis og andsvör fjögurra þingmanna við því.