„Engum hlutaðeigandi kom til hugar að málið yrði raunverulega rekið áfram á grundvelli frétta í vefútgáfum Stundarinnar, DV og Kvennablaðsins, sem allir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum vita að fara nærri því að hatast við Miðflokkinn og þingmenn hans,“ skrifar Bergþór Ólason í andsvari sínu til forsætisnefndar vegna álits siðanefndar Alþingis.
Fram kom í fréttum í morgun að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, hefðu samkvæmt siðanefnd Alþingis brotið siðareglur alþingismanna með ummælum sem þeir létu falla á barnum Klaustri þann 20. nóvember síðastliðinn.
Málið hófst þegar heimildarmaðurinn „Marvin“ – sem síðar kom í ljós að væri Bára Halldórsdóttir – sendi upptökur af samræðum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins á þrjá fjölmiðla: DV, Stundina og Kvennablaðið.
Í lok maí síðastliðins var niðurstaða stjórnar Persónuverndar gerð kunngjörð en taldi nefndin að Bára Halldórsdóttir hefði brotið persónuverndarlög með því að taka upp samtal þingmanna á barnum og um rafræna vöktun hefði verið að ræða að hennar hálfu. Báru var ekki gert að greiða sekt en hún þurfti að eyða umræddum upptökum, sem og hún gerði.
„Samhengislausar tilvitnanir og túlkanir fjölmiðla“
Í bréfi Bergþórs til forsætisnefndar segir: „Í bréfi þeirra fjögurra þingmanna sem skrifuðu forsætisnefnd og gerðu kröfu um eyðingu gagna, á grundvelli úrskurðar persónuverndar, kom skýrt fram að ætlan þingmannanna var að bregðast við á grundvelli þess hvort orðið yrði við kröfu um eyðingu á ólöglega fengnum gögnum.“
Þá greinir Bergþór frá því að engum hlutaðeigandi hafi komið til hugar að málið yrði raunverulega rekið áfram á grundvelli frétta í vefútgáfum Stundarinnar, DV og Kvennablaðsins, sem allir sem fylgjast með íslenskum stjórnmálum viti að fara nærri því að hatast við Miðflokkinn og þingmenn hans. „Það þarf ekki annað en að segja við sjálfan sig upphátt að slíkt sé ætlanin, til að átta sig á hversu galin sú hugmynd er.“
Hann rökstyður fullyrðingar varðandi meint hatur fjölmiðlanna þriggja ekki frekar.
„Það liggur í hlutarins eðli að álit sem hefði byggt á frumgögnum málsins stæði alltaf á sterkari grunni en samhengislausar tilvitnanir og túlkanir fjölmiðla, sem miða oft fremur að því að vekja eftirtekt lesenda og jafnvel hneykslan, en að gæta sannmælis og leita sannleikans. Þessir miðlar lifa á því að fólk klikki á fyrirsagnir á vefnum og kaupi prentútgáfur miðlanna,“ skrifar Berþór.