Apple hefur vikið verktökum sem hlustuðu á upptökur frá Siri, raddþjónustu í iPhone símum, úr starfi. Uppsagnirnar koma í kjölfar upplýsinga sem the Guardian birti á vef sínum.
Rannsókn The Guardian sýndi fram á að verktakarnir gátu hlustað á samræður almennra notenda og komust þannig á snoðir um persónulegar upplýsingar einstaklinga. Til að mynda hafi verktakarnir hlustað á fólk hafa samræði og fíkniefnakaup. Þeir hafi einnig heyrt upplýsingar um lyfjanotkun fólks.
Apple sagði blaðamönnum The Guardian að einungis væri rýnt í lítinn hluta samskipta notenda við Siri og væru verktakarnir bundnir þagnarskyldu. Talsmenn Apple segja fyrirtækið ekki munu halda áfram með verkefnið fyrr en ítarlega væri farið yfir verkferla þess.
Uppljóstrari sem vinnur fyrir Apple sagði The Guardian að hann hefði heyrt fjölmargar upptökur af afar viðkvæmum samskiptum notenda iPhone. Til að mynda hefði hann heyrt fólk tala við lækni sinn, heyrt af viðskiptasamningum, ólöglegum athöfnum fólks og samræði fólks. Hann hefði jafnframt séð staðsetningu þeirra, hver þau voru og hvaða síma þau voru með.