Paul Richard Horner og Gunnar Sturluson voru kjörnir í stjórn Arion banka á hluthafafundi sem haldinn var í gær. Alls sóttust þrír eftir tveimur stjórnarsætum, en þriðji frambjóðandinn var Már Wolfgang Mixa. Tilnefningarnefnd bankans hafði mælt með Gunnari og Horner.
Þá var Júlíus Þorfinnsson, framkvæmdastjóri Stoða, kjörinn í tilnefningarnefnd Arion banka á fundinum. Stoðir er stærsti íslenski einkafjárfestirinn í Arion banka með tæplega fimm prósent eignarhlut.
Fyrir utan kosningu í þessar þrjár stöður var eitt mál á dagskrá hluthafafundarins: tillaga frá Rúnari Einarssyni, hluthafa í bankanum, sem lagði til að hætt yrði að gera kaupaukasamninga, framvirka hlutafjársamninga við æðstu stjórnendur og að öll önnur bónuskerfi bankans yrðu afnumin.
Rúnar lagði einnig til að öll störf bankans þar sem laun væru yfir ein milljón króna á mánuði auglýst og umsækjendur látnir setja fram launakröfur í lokað umslag. Hæfnisnefnd yrði svo látin fara yfir umsóknir og sá umsækjandi sem uppfyllti allar kröfur sem farið væru fram á í umsókn og jafnframt óskaði eftir lægstu laununum yrði ráðinn í starfið. „Báðar þessar hugmyndir ganga út á að lækka kostnað bankans og auka þar með hagnað hluthafa þannig að hægt verði að greiða hærri arðgreiðslur,“ sagði í tillögu Rúnars.
Bankastjórinn fékk tvöföld árslaun við starfslok
Launakostnaður Arion banka hefur verið í sviðsljósinu eftir að bankinn birti hálfsársuppgjör sitt á fimmtudag. Í því kom meðal annars fram að kostnaður bankans vegna uppsagnar Höskuldar H. Ólafssonar, fyrrverandi bankastjóra, næmi 150 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2019.
Ekki er tilgreint í reikningnum hvað felist í greiðslunni en Höskuldur sagði það opinberlega að hann hefði ekki verið rekinn, heldur hafi hann hætt af sjálfsdáðum. Sjaldgæft er að uppsagnarfrestir séu greiddir við slíkar aðstæður á almennum vinnumarkaði.
Höskuldur hafði fengið alls 67,5 milljónir króna í laun á árinu 2018 og 7,2 milljónir króna í árangurstengdar greiðslur. Sú greiðsla sem Arion innti af hendi til Höskuldar vegna starfsloka hans á öðrum ársfjórðungi er því tvöföld heildarárslaun hans á síðasta heila árinu sem hann starfaði sem bankastjóri Arion banka.