150 milljóna króna starfslok Höskuldar H. Ólafssonar hjá Arion banka samanstóðu annars vegar af uppsagnarfresti og hins vegar samningi um starfslok. Ekki var um eingreiðslu að ræða þrátt fyrir að kostnaðurinn hafi allur verið gjaldfærður á öðrum ársfjórðungi heldur greiðslu sem greiðist út eins og laun yfir tíma.
Starfslokin voru í fullu samræmi við samning sem gerður var við Höskuld árið 2017. Þetta kemur fram í svari Haraldar Guðna Eiðssonar, upplýsingafulltrúa Arion banka, við fyrirspurn Kjarnans um greiðsluna.
Ekki fæst uppgefið hversu stór hluti upphæðarinnar er vegna uppsagnarfrests og hversu stór hluti hennar er vegna annarra samningsbundinna greiðslna.
Breyting gerð á ráðningarsamningi 2017
Breyting var gerð á ráðningarsamningi Höskuldar um mitt ár 2017 þegar skráning Arion banka á markað á Íslandi og í Svíþjóð var í undirbúningi. Breytingin var gerð í kjölfar þess að Monica Caneman ákvað að hætta sem stjórnarformaður Arion banka í maí 2017.
Starfslok Höskuldar séu í fullu samræmi við þennan samning sem hafi samanstaðið að uppsagnarfresti annars vegar og samningi um starfslok hins vegar. „Segja má að kjörin séu vissulega óvenjuleg en aðstæður voru óvenjulegar í ljósi skráningar bankans á markað og mikilvægi þessi að stöðugleiki ríkti í þessum æðstu stjórnunarstöðum bankans á þeim tíma.“
Skráning Arion banka á markað frestaðist á endanum og frumútboð á hlutabréfum í bankanum fór ekki fram fyrr en í maí 2018. Viðskipti með bréf bankans hófust svo í Kauphöllunum á Íslandi og í Svíþjóð 15. júní sama ár. Höskuldur hætti störfum hjá Arion banka í lok apríl síðastliðins. Hann hefur þvertekið fyrir það opinberlega að hafa verið rekinn heldur hafi hann sagt starfi sínu lausu.
Tvöföld árslaun
Í árshlutareikningi Arion banka, sem birtur var síðastliðinn fimmtudag, kom fram að bókfærður kostnaður bankans vegna uppsagnar Höskuldar næmi 150 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi. Sá kostnaður inniheldur greiðslur vegna uppsagnarfrests, launatengdra gjalda og samningsbundinna greiðslna.
Höskuldur hafði fengið alls 67,5 milljónir króna í laun á árinu 2018 og 7,2 milljónir króna í árangurstengdar greiðslur. Sú greiðsla sem Arion gjaldfærði á síðasta ársfjórðungi vegna starfsloka Höskuldar er því tvöföld heildarárslaun hans á síðasta heila árinu sem hann starfaði sem bankastjóri Arion banka.