Ríkisstjórn Donalds Trump, Bandaríkjaforesta, tilkynnti í gær að von væri á breytingum á lögum um verndun dýra í útrýmingahættu. Breytingarnar munu veikja lögin sem til að mynda vernda skallaerni, grábirni og krókódíla frá útrýmingarhættu, en myndu hins vegar auðvelda olíuborun og borun fyrir gasi á svæðum sem dýrin hafa heimkynni sín. Þetta kemur fram í frétt the New York Times.
Nýju lögin munu einnig gera sérfræðingum erfiðara að taka tillit til loftslagsbreytinga og áhrifa þeirra á dýralíf varðandi það hvort flokka eigi dýr sem dýr í útrýmingarhættu. Miklar líkur eru á því að svæðin sem dýrin hafa sem heimkynni muni minnka.
Umhverfisverndunarsamtök í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt breytingarnar og segja þær stofna dýrunum í voða. Margir Repúblíkanar og stuðningsmenn Trump segja hins vegar að núverandi lög hamli landeigendum, iðnaði og efnahagsvexti.
Í núgildandi lögum eru ákvarðanir um flokkun dýra í útrýmingahættu auk búsvæðis þeirra einungis skilgreint á vísindalegum forsendum. Með breytingunum munu efnahagslegir þættir vega hátt þegar ákvarðanir eru teknar um breytingar á flokkun dýranna eða heimkynna þeirra.
Ein milljón dýra í útrýmingahættu
Líffræðilegur fjölbreytileiki jarðarinnar er í gífurlegri hættu vegna ágangs manna á náttúruna á síðustu áratugum. Nú eru alls fjórðungur dýra- og plöntutegunda á jörðinni í útrýmingarhættu eða allt að ein milljón tegunda. Þetta kemur fram í nýrri og umfangsmikilli skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna um stöðu líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfi jarðarinnar.
Skýrslan er unnin af IPBES, Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services, sem er stofnunin á vegum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi. Skýrslan er alls 1.800 blaðsíður og var unnin af 450 vísindamönnum. Í skýrslunni er kallað eftir tafarlausum aðgerðum og varað er við því að ef ekkert verði gert munu komandi kynslóðir finna fyrir þeim alvarlegu afleiðingum sem hrun lífskerfa sem sjá manninum fyrir mat og hreinu vatni fela í sér.
Kate Brauman, einn höfundur skýrslunnar, segir í samtali við BBC að skýrslan sýni fram á virkilega fordæmalausa hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og náttúru. „Þetta er algerlega ólíkt nokkru sem við höfum séð í sögu mannkynsins hvað varðar hraða hnignunarinnar og umfang ógnarinnar,“ segir Brauman.