Umræða um hatursorðræðu og mörk hennar hefur verið áberandi undanfarin misseri, sérstaklega í ljósi nýs frumvarps um breytingar á ákvæði um hatursorðræðu í almennum hegningarlögum.
Rætt verður um hatursorðræðu út frá hinsegin vinkli á Hinsegin dögum sem nú standa yfir í dag kl. 16:30 á Þjóðminjasafni Íslands. Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna '78, mun taka til máls, sem og aktívistinn Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir. Ugla Stefanía er búsett í Bretlandi, þar sem hatursorðræða gagnvart transfólki hefur færst í aukanna undanfarið, og mun hún fjalla um sína persónulegu reynslu af slíkri orðræðu. Eyrún Eyþórsdóttir, aðjúnkt í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri, mun einnig halda erindi á viðburðinum í dag.
Þorbjörg segir í samtali við Kjarnann að hún muni meðal annars fjalla um nýja pólska rannsókn sem sýnir hvernig það svart á hvítu hvernig hatursorðræða ýtir undir fordóma í gegnum svokallaða afnæmingu, það er þegar fólk venst ákveðinni orðræðu sem normalíserar hana þar af leiðandi.
Algengast að trans fólk verði fyrir aðkasti
Þorbjörg segir að þau hjá Samtökunum '78 hafi alltaf áhyggjur af hatursorðræðu. Hún nefnir að slík orðræða gagnvart hinsegin fólki hafi aukist hér á landi sem og annars staðar. Sem dæmi tekur hún umræðu á netinu í kjölfar þess að frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði var samþykkt fyrr í sumar. Með samþykkt frumvarpsins var festur í lögum réttur einstaklinga til að skilgreina kyn sitt sjálfir og tryggja með því að kynvitund þeirra njóti viðurkenningar.
„Þessi umræða hefur gefið ákveðið skotleyfi á trans fólk og hef ég miklar áhyggjur áf því,“ segir hún. Eitthvað er líka um að trans fólk verði fyrir aðkasti á götu úti. „Þetta á reyndar við um alla jaðarsetta hópa, en algengast er þetta hjá trans fólki og sérstaklega hjá þeim sem eru sjáanlega trans. Þau þurfa að glíma við töluvert í sínu lífi,“ segir Þorbjörg.
Drekkja spjallþráðum í jákvæðni
Þorbjörg bendir jafnframt á að orðræðan sem sumir nota á netinu – á athugasemdakerfum og víðar – geti verið mjög fordómafull. Þar sé meðal annars hægt að finna hatursorðræðu eða í það minnsta hættulega orðræðu.
Til að sporna við þessu hefur hún og Ugla Stefanía stofnað hóp á Facebook sem nefndist Fordómavaktin. Hópurinn er hugsaður sem staður þar sem settir eru inn linkar á fordóma- og hatursfulla umræðu og er tilgangurinn að drekkja þráðunum í jákvæðni með samstilltu átaki. Þorbjörg segir að það vinni á móti fordómum að lesa jákvæðu athugasemdirnar og gríðarlega miklu máli skipti að fá fólk til að tala saman.