Ný bandarísk innflytjendareglugerð kveður á að innflytjendur sem búi við bága fjárhagsstöðu og innflytjendur sem þurfi á opinberri heilbrigðisþjónustu að halda mun vera neitað um græna kortið í Bandaríkjunum. Búi innflytjandi í niðurgreiddu húsnæði af ríkinu, eða talið er að hann muni þurfa á opinberri heilbrigðisþjónustu að halda í framtíðinni, verður nær ómögulegt fyrir hann að sækja um græna kortið. Græna kortið veitir innflytjendum stöðu sem einstaklingar með fasta búsetu í Bandaríkjunum.
Reglugerðin sem skrifuð er af ríkisstjórn Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, beinist ekki gegn ólöglegum innflytjendum heldur að innflytjendum sem koma til landsins löglega og vilja halda áfram að vera í Bandaríkjunum. Búi innflytjendurnir við bága fjárhagsstöðu verður hægt að flokka þá sem „byrði á skattgreiðendur“ og þeim því neitað um græna kortið. Þetta kemur fram í frétt the New York Times.
Innflytjendur reiði sig ekki á velferðarkerfið
Í gær tilkynnti Kenneth T. Cuccinelli II, yfirmaður bandaríska ríkisborgararéttarins og innflytjendamála, fyrir hönd bandarísku ríkisstjórnarinnar að reglugerð um innflytjendur í Bandaríkjunum yrði hert. Hann sagði að áhersla yrði lögð á að innflytjendur væru „sjálfum sér nægir og beri persónulega ábyrgð.“ Jafnframt sem nýja reglugerðin „gerir innflytjendum kleyft að sjá fyrir sjálfum sér og ná árangri.“
Cuccinelli sagði að nýja reglugerðin myndi tryggja að innflytjendur geti staðið á eigin fótum og muni ekki reiða sig á velferðarkerfi Bandaríkjanna.
Reglugerðin mun þó ekki gilda um fólk sem hafi þegar hlotið græna kortið, fólk í hernum, flóttamenn og hælisleitendur eða óléttar konur og börn. Baráttumenn fyrir réttindum innflytjenda hafa varað við því að reglugerðin gætu fælt innflytjendur frá því að sækja um græna kortið, jafnvel þótt þeir standist kröfur hennar.
Jákvæðir og neikvæðir þættir innflytjenda metnir
Samkvæmt nýju reglugerðinni munu opinberir starfsmenn útlendingastofnunar Bandaríkjanna líta til aldurs, heilsu, eigna, innkomu, menntunar og fjölskylduhaga, þegar kemur að því að meta hvort innflytjendur ættu að fá græna kortið. Fátækari innflytjendum verður gert að sanna að þeir muni ekki þurfa bætur eða hjálp ríkisins í framtíðinni. Reglugerðina má lesa hér.
Í reglugerðinni stendur að neikvæðir þættir sem hafi áhrif á umsókn innflytjenda séu atvinnuleysi, að vera þiggjandi opinberrar aðstoðar, að hafa þegið opinbera aðstoð 36 mánuðum áður en sótt var um græna kortið og að geta ekki greitt fyrir heilbrigðisþjónustu.
Jákvæðir þættir teljast fjölskyldutengsl, að vera enskumælandi, vera menntaður, hafa heilbrigðistryggingu, hafa unnið innan Bandaríkjanna, hafa hlotið styrki, vera foreldri og geta að vinna í framtíðinni.
Heilbrigði stór þáttur
Hafi innflytjandi hlotið opinbera heilbrigðisþjónustu og sé án heilbrigðistryggingar annarrar en opinberrar mun það bitna á umsókninni. Innflytjendur sem geta borgað fyrir sína eigin heilbrigðisþjónustu án aðstoðar ríkisins munu frekar fá græna kortið.
Ákvæðin gilda þó ekki um heilbrigðisþjónustu fatlaðra, barna, óléttra kvenna, heilbrigðisþjónustu veitta í skólum og heilbrigðisþjónustu kvenna 60 dögum eftir barnsburð. Einnig á reglugerðin ekki við um börn sem ættleidd verða af bandarískum borgurum.
Yfirvöld í Bandaríkjunum munu jafnframt hafa rétt að skoða skýrslur um heilbrigði innflytjenda til að meta hvort mögulega þurfi innflytjandinn á opinberri heilbrigðisþjónustu að halda í framtíðinni. Því er ljóst að innflytjendur sem eru með tryggingu og við góða heilsu eiga meiri líkur á að hljóta græna kortið.
Vopnvæða kerfi sem á að hjálpa fólki
„Þetta er grimmilegt skref í átt að vopnvæða kerfi sem ætlað er til að hjálpa fólki og í staðinn nota það til að stía fjölskyldum í sundur og senda innflytjendum og lituðum samfélögum skilaboðin: Þið eruð ekki velkomin,“ sagði Marielena Hincapié, framkvæmdastjóri miðstöðvar innflytjendalaga í Bandaríkjunum í samtali við the New York Times.
„Þetta mun hafa alvarleg áhrif á fólk, mun neyða sumar fjölskyldur að sleppa heilbrigðisþjónustu og næringu. Skaðinn mun vara í áratugi,“ bætti hún við.
Trump hefur lengi krafist þess að innflytjendur ættu einungis að fá græna kortið byggt á „verðleika“ sínum. Í janúar 2018 lét hann til að mynda þau frægu orð falla að Bandaríkin ættu ekki að taka við innflytjendum frá „skítalöndum.“