Eflaust halda margir að eldra fólk hafi mestan áhuga á ættfræði og telja jafnvel að sá hópur sem noti Íslendingabók sé fólk sem komið er á eftirlaun. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu þeirra eru þó flestir notendur Íslendingabókar á aldrinum 21 til 30 ára.
„Þessi aldurshópur er vissulega mjög vel tengdur á netinu og samfélagsmiðlum og eyðir drjúgum tíma í að flakka um netið en fæstir hefðu haldið að Íslendingabók væri fastur viðkomustaður þeirra. Sú kenning hefur verið uppi að þetta sé vegna þess að unga fólkið sé í makaleit og þess vegna að skoða fjölskylduhagi hvers annars. Þetta eru bara getgátur og kannski hefur unga fólkið bara svona mikinn áhuga á ættfræði. Til dæmis er ungt fólk duglegt við að setja inn myndir þó eldri kynslóðin eigi þar vinninginn,“ segir á síðunni.
95 prósent Íslendinga í bókinni
Íslendingabók er gagnagrunnur sem hefur að geyma upplýsingar um ættir nær allra Íslendinga sem heimildir eru til um. Þar má finna tæplega 900.000 einstaklinga allt frá landnámi til okkar daga. Samkvæmt Íslendingabók er um 95 prósent allra Íslendinga – sem uppi hafa verið frá því að Manntalið 1703 var skráð hér á landi – að finna í Íslendingabók. Einnig megi finna einstaklinga allt aftur til landnáms ef þeirra sé getið í heimildum.
Upphafið að Íslendingabók má rekja aftur til ársins 1988 þegar Friðrik Skúlason hóf að skrá ættfræðiupplýsingar í ættfræðiforrit sitt Espólín. Íslensk erfðagreining og Friðrik Skúlason hófu samstarf um gerð Íslendingabókar árið 1997 meðal annars með það að markmiði að nýta ættfræðiupplýsingar við rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar.
Aðgangur hvers og eins afmarkast við nánustu ættingja, beinan legg aftur og alla þá sem fæddir eru fyrir árið 1700. Nánasta fjölskylda miðast við langömmur og langafa og alla afkomendur þeirra. Ekki er veittur aðgangur að systkinum langömmu og langafa.