Snorri Rafnsson, betur þekktur sem Vargurinn, var tekjuhæsti áhrifavaldurinn árið 2018, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar, en hann var með 1.480 þúsund krónur á mánuði. Töluverður munur er á tekjum áhrifavalda og eru til að mynda 21 af þeim sem eru í blaðinu með undir 450 þúsund krónum á mánuði og eru fimm með undir 200 þúsund krónum.
Tekjublaðið, þar sem tekjur 3.725 Íslendinga eru opinberaðar á grundvelli upplýsinga á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK), kom út í dag.
Samkvæmt Tekjublaðinu var Tanja Ýr Ástþórsdóttir, áhrifavaldur og snappari, með minnstar tekjur af þeim sem eru á listanum með 93 þúsund krónur á mánuði. Manúela Ósk Harðardóttir, áhrifavaldur og snappari, var með 191 þúsund krónur á mánuði, Alda Karen, áhrifavaldur, með 206 þúsund krónur í tekjur á mánuði og Guðrún Veiga með 327 þúsund krónur á mánuði.
Arna Ýr Jónsdóttir var með 244 þúsund á mánuði, Sunneva Eir Einarsdóttir með 229 þúsund og Ingileif Friðriksdóttir með 126 þúsund krónur á mánuði.