Stakksberg ehf., félag í eigu Arion banka, vinnur nú að 4,5 milljarða endurbótum á kísilmálmverksmiðjunni í Helguvík. Endurbæturnar eru í samræmi við skilyrði sem Umhverfisstofnun setti þegar hún samþykkti úrbótaáætlun fyrir verksmiðjuna. Félagið stefnir að því að reisa 52 metra háan skorstein sem draga á úr mengun frá verksmimðjunni, þar á meðal lyktarmengun.
Lokuð vegna mengunar
Kísilverið í Helguvík er fyrsta kísilmálmverksmiðjan sem hefur verið gangsett á Íslandi og fyrsti ljósbogaofninn í verksmiðjunni fór af stað 13. nóvember 2016. Fljótlega fór að bera á mikilli óánægju hjá íbúum í Reykjanesbæ með mengun frá verksmiðjunni. Margir fundu fyrir töluverðum líkamlegum einkennum vegna þessa og voru meðal annars haldnir fundir þar sem fólk deildi sögum sínum og kvartaði undan menguninni.
Í apríl 2017 tilkynnti Umhverfisstofnun forsvarsmönnum United Silicon ehf. að ekki yrði hjá því komist að loka verksmiðjunni vegna mengunar sem frá henni streymdi. Í kjölfarið voru veittir frestir en starfsemin var endanlega stöðvuð 1. september 2017.
United Silicon fór í kjölfarið í þrot en helsti kröfuhafi félagsins var Arion banki. Eftir gjaldþrotið tók félag í eigu bankans yfir kísilmálverksmiðjuna í Helguvík og lýsti því yfir að markmið þess væri að gera allar þær úrbætur sem nauðsynlegar væru til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar, og koma verksmiðjunni aftur í gagnið.
Skorsteinn skilyrði Umhverfisstofnunar
Í nýrri fréttatilkynningu Stakksbergs segir að fyrirhugaðar endurbætur félagsins felast meðal annars í því að reisa 52 metra skorsteinn við hlið síuhúss verksmiðjunnar en skorsteininn var meðal þeirra skilyrða sem Umhverfisstofnun setti en óheimilt er að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá stofnuninni.
Samkvæmt tilkynningunni mun allur útblástur frá verksmiðjunni verða leiddur í gegnum síuhús þar sem ryk er síað frá áður en loftinu verður blásið upp um skorsteininn. Með nýja skorsteininum mun útblástursopið hækka um tæplega 21,5 metra auk þess að þrengjast verulega sem mun valda verulegri aukningu í útblásturshraða. Þá á þrengingin að valda því að styrkur mengunarefnanna þynnist út mun hraðar en áður.
Verkfræðistofan Vatnaskil hefur unnið að mati á áhrif endurbótanna á loftgæðum fyrir Stakksberg og að þeirra mati munu þessar endurbætur draga verulega úr megnun frá verksmiðjunni. Þar á meðal lyktarmengun í nærliggjandi íbúabyggð. Í tilkynningu félagsins segir jafnframt að undirbúningur, hönnun og útfærsla endurbóta á verksmiðjunni sé 4,5 milljarða fjárfesting.
Mikil andstaða á meðal íbúa
Mikil andstaða hefur byggst upp á meðal íbúa Reykjanesbæjar við frekari stóriðju í Helguvík. Sú andstaða snýr bæði að endurræsingu kísilmálmvers Stakksbergs og fyrirhugaðri verksmiðju félagsins Thorsil á svæðinu. Vegna hennar hafa verið stofnuð félagasamtökin „Andstæðingar stóriðju í Helguvík“.
Samtökin stóðu fyrir undirskriftasöfnun til að efna til bindandi íbúakosninga vegna starfsemi Stakksberg og Thorsil í Helguvík sem þau afhentu bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ í febrúar á þessu ár. Söfnunin var ekki samkvæmt reglum og því var ekki haldin kosning á grundvelli henna. Þá hafa samtökin falið lögmanni að óska eftir því við Umhverfisstofnun að starfsleyfi Stakksbergs verði afturkallað.