Mikið tap hefur verið á frímerkjasölu Íslandspósts síðustu ár og stefnir fyrirtækið því á að hætta þjónustu við frímerkjasafnara næstu áramót vegna hagræðingar innan fyrirtækisins. Uppsafnað tap til safnara er tæpar 90 milljónir á síðustu fimm árum. Forstjóri Íslandspóst segir ástæðuna fyrir þessu mikla tapi sé að tekjur hafi dregist saman vegna fækkunar safnara á meðan ekki hefur tekist að lækka kostnað í sama mæli.
Sala á frímerkjum dregist verulega saman
Ríkið hefur einkarétt á að gefa út frímerki og hefur falið fyrirtæki sínu, Íslandspósti, framkvæmdina grundvelli samnings um alþjónustu. Íslandspóstur hefur starfrækt sérstaka skrifstofu, Frímerkjasölu Póstsins, til að gefa út og selja frímerki.
Frímerkjasala er tvíþætt, annars vegar sala á frímerkjum sem burðargjald og hins vegar sala til safnara. Íslandspóstur hefur rekið metnaðarfulla frímerkjaútgáfu í áratugi og hafa kaup safnara, bæði hérlendis og erlendis, verið undirstaðan í sölu nýrra frímerkja síðustu ár.
Sala frímerkja hefur hins vegar dregist verulega saman á síðustu árum. Í fyrra seldust 2,7 milljón stykki af frímerkjum hjá Frímerkjasölu Póstsins, þar af voru 119 þúsund seld til safnara. Árið 2017 seldi Pósturinn 3,5 milljón stykki og þar af 144 þúsund til safnara. Það sem af er ári hafa selst 1,2 milljón stykki þar af 57 þúsund til safnara en enn eru tvær útgáfur eftir.
90 milljóna tap á fimm árum
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að samdráttinn megi rekja til mikillar fækkunar í frímerktum bréfum en stærstur hluti bréfapósts er stimplaður gluggapóstur í dag. Auk þess hafi frímerkjasöfnurum fækkað töluvert eða um það bil tíu prósent ár frá ári að jafnaði, að því er fram kemur í svari Íslandspósts.
Í svarinu segir jafnframt að tekjur hafi dregist sman á sama tíma og ekki hafi tekst að lækka kostnað í sama mæli. Tekjur Íslandspósts af frímerkjasölu hafa lækkað um tæplega 30 prósent á síðustu fimm árum, þrátt fyrir hækkun á verðgildi frímerkja.
Ennfremur kemur fram í svari Íslandspósts að uppsafnað tap á frímerkjasölu til safnara frá 2014 til 2018 eða á 5 ára tímabili er tæplega 90 milljónir. Þá mun afkoma ársins 2019 einnig verða slæm, samkvæmt svarinu.
„Metnaðarfull frímerkjaútgáfa er kostnaðarsöm og þegar upplögin minnka vegna minnkandi eftirspurnar hækkar kostnaður á hverju frímerki. Lengi vel var þetta arðbært en síðustu ár hefur hallað undan fæti,“ segir Birgir.
Miklar hagræðingar innan Íslandspósts
Íslandspóstur hefur átt við fjárhagserfiðleika að stríða á síðustu árum og í fyrra var rekstrarafkomu Íslandspósts neikvæð um 287 miljónir króna. Fjárhagsvandi fyrirtækisins á árinu 2018 leiddi til þess að félagið stefndi í greiðsluvanda þegar viðskiptabanki þess lokaði fyrir frekari lánveitingar. Í kjölfarið fékk ríkissjóður heimild frá Alþingi í lok síðasta árs til að veita fyrirtækinu einn og hálfan milljarð í neyðarlán. Lánið var háð þeim skilyrðum að fyrirtækið standi við fjárhagslega endurskipulagningu og haldi þingheimi upplýstum um gang mála.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst sem kynnt var fyrir Alþingi í júní síðastliðnum kemur fram að fullyrða megi að að talsverð bjartsýni hafi í gegnum tíðina einkennt rekstraráætlanir Íslandspósts. Frá árinu 2010 hefur alltaf verið gert ráð fyrir að reksturinn skilaði hagnaði eða að meðaltali um 170 milljónir króna. Á árunum 2013 til 2018 tapaði Íslandpóstur hins vegar í heildina 246 milljónum.
Í júní síðastliðnum var síðan tilkynnt að viðamiklar skipulagsbreytingar væru fram undan hjá Íslandspósti til að draga úr rekstrarkostnaði fyrirtækisins og auka hagræðingu. Framkvæmdastjórum fyrirtækisins hefur verið fækkað úr fimm í þrjá og fyrr í ágúst var 40 starfsmönnum Íslandspósts sagt upp. Þrír starfsmenn Frímerkjasölunnar voru meðal þeirra sem fengu uppsagnarbréf.
Frímerki til á lager
Birgir segir að rekstur Íslandspósts geti ekki borið þetta mikla tap frímerkjasölunnar lengur og því mun frímerkjaútgáfu Póstsins verða stöðvuð um næstu áramót sem hluti af hagræðingaraðgerðum Íslandpósts.
„Til að viðhalda frímerkjasölu til safnara þarf að reka öfluga útgáfu starfsemi og vera stöðugt að leita leiða til að koma með ný merki á markað. Það er kostnaðarsamt og eftirspurnin því miður ekki nægileg til að skynsamlegt sé að halda því áfram í þeirri mynd sem verið hefur,“ segir Birgir.
Birgir segir hins vegar að útgáfa nýrra frímerkja sé undirbúin langt fram í tímann og munu frímerki því koma út eitthvað fram á þarnæsta ár. Þá á Íslandpóstur lager af frímerkjum sem hægt er að nýta fyrir burðargjöld til fjölda ára, jafnvel fram á síðasta bréf. Auk þess verður hægt að endurprenta eldri útgáfur frímerkja, ef á þurfi að halda.
Einkaréttur Íslandspóst fellur niður um áramótin
Einkaréttur Íslandspósts á bréfum fellur niður um áramót þegar ný lög um póstþjónustu taka gildi. Viðræður ríkisins og Íslandspósts um þjónustusamning sem taka á gildi þegar einkarétturinn fellur úr gildi eiga sér nú stað. Ef ríkið telur útgáfa nýrra frímerkja mikilvæg menningarleg starfsemi þá gæti ríkið ákveðið að ábyrgjast útgáfu í nýjum þjónustusamningi um einkarétt.