Þegar Financial Action Task Force (FATF), alþjóðleg samtök gegn peningaþvætti, felldi áfellisdóm yfir löggjöf og eftirliti Íslendinga með peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í fyrravor fékk „Fjármálaeftirlitið og ýmsir aðrir hvassa brýningu um að taka til hendinni og verða við úrbótakröfum alþjóðasamfélagsins.“
Þetta kemur fram í pistli Unnar Gunnarsdóttur, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), í nýjustu útgáfu Fjármála, rits stofnunarinnar, sem kom út í gær.
Líkt og Kjarninn hefur greint frá þá gerði FATF úttekt á frammistöðu Íslands varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti og skilaði niðurstöðu sinni í apríl 2018. Niðurstaðan var, að sögn Unnar, „áfellisdómur hvað varðar löggjöf og framkvæmd stjórnvalda í málefnum tengdum peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.“
Brátt muni draga til tíðinda þegar endanleg niðurstaða FATF liggi fyrir varðandi hvort Ísland hafi brugðist nægilega hratt og vel við þeim. „Ljóst er að Fjármálaeftirlitið mun áfram gera allt hvað það getur til að efla varnir og orðspor Íslands að þessu leyti.“
Áfram í eftirfylgni
Kjarninn greindi frá því á þriðjudag að Ísland hafi skilað FATF eftirfylgnisskýrslu vegna aðgerða sem Ísland hefur gripið til til að bæta varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, snemma í sumar. Skýrslan var tekin til umræðu á fundi FATF þann 19. júní síðastliðinn, en Ísland hafði fram til þess tíma til að bregðast við fjölmörgum athugasemdum FATF og sleppa við að vera sett á lista samtakanna yfir ósamvinnuþýð ríki.
Verið að styrkja varnirnar
Unnur ræddi þessi mál í viðtali við sjónvarpsþáttinn 21 á Hringbraut fyrr á þessu ári. Þá hafði nýverið birst grein eftir Gylfa Zoega, prófessor í hagfræði, í Vísbendingu sem vakti mikla athygli en þar sagði hann meðal annars: „„Um þessar mundir eru ýmsir af þeim einstaklingum sem tóku virkan þátt í fjármálaævintýrinu 2003-2008 að snúa aftur til landsins. Peningum var í mörgum tilvikum komið undan árin 2007-2008 og eru þetta fjármagn nú að skila sér til baka, einmitt þegar búið er að gera upp þrotabú hinna föllnu banka upp. Líklegt er að a.m.k. einn öflugur banki verði í eigu þessara aðila innan ekki langs tíma ef það hefur ekki gerst nú þegar.“
Unnur sagði að Fjármálaeftirlitið gæi ekki fylgst með því beint hvort að peningum sem komið hefði verið með einhverjum hætti undan væru nú að notast til að kaupa upp hluti í bönkum en benti á að verið sé að bregðast mjög hart við ábendingum um veikleika sem tengjast vörnum Íslands gegn peningaþvætti, vegna athugasemda FATF. „Það er verið að styrkja allt kerfið varðandi aðgerðir gegn peningaþvætti. Áður var kannski fókusinn fyrst og síðast á fjármálaþjónustu en nú er búið að stækka flóruna. Þannig að það á að vera erfiðara að nota listaverkasala, fasteignasala og allt svoleiðis til að þvætti peninga.“