Mynd: Pexels.com

Ísland áfram í aukinni eftirfylgni vegna peningaþvættisvarna

Lokaútgáfa skýrslu um peningaþvættisvarnir Íslands, vegna athugunar sem alþjóðleg samtök hafa unnið að frá því í fyrravor, mun verða birt fyrstu vikuna í september. Á meðal þess sem fram kemur í henni er að Ísland verður áfram í „aukinni eftirfylgni“ hjá samtökunum.

Íslands skil­aði Fin­ancial Act­ion Task Force (FAT­F), alþjóð­legum sam­tökum sem hafa það hlut­verk að móta aðgerðir til að hindra að fjár­mála­kerfið sé mis­notað í þeim til­gangi að koma illa fengnu fé í umferð aft­ur, eft­ir­fylgn­is­skýrslu vegna aðgerða sem Ísland hefur gripið til til að bæta varnir sínar gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka, snemma í sum­ar. Skýrslan var tekin til umræðu á fundi FATF þann 19. júní síð­ast­lið­inn, en Ísland hafði fram til þess tíma til að bregð­ast við fjöl­mörgum athuga­semdum FATF og sleppa við að vera sett á lista sam­tak­anna yfir ósam­vinnu­þýð rík­i. 

Í svari dóms­mála­ráðu­neyt­is­ins við fyr­ir­spurn Kjarn­ans um málið kemur fram að unnið sé að loka­út­gáfu skýrsl­unnar og að áætlað sé að hún verði birt á heima­síðu FATF fyrstu vik­una í sept­em­ber. „Efn­is­þættir skýrsl­unnar lúta aðal­lega að fylgni Íslands við til­mæli FATF og er megin nið­ur­staða hennar hækkun á 14 til­mælum og stað­fest­ing á því að Ísland verði áfram í auk­inni eft­ir­fylgni hjá FAT­F.“

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum Kjarn­ans mun sú eft­ir­fylgni meðal ann­ars fela í sér fund­ar­höld þar sem full­trúar frá Íslandi munu fara erlendis til að ræða athuga­semdir FATF. Í kjöl­farið verður málið form­lega tekið fyrir á fundi sam­tak­anna, fyrst und­ir­bún­ings­fundi en svo þar sem full­trúar allra aðild­ar­ríkja sitja. Allt þetta á að klár­ast fyrir ára­mót og í kjöl­farið á að liggja fyrir skýr­ari mynd um hvort að Ísland hafi gert nóg til að bregð­ast við þeim mikla fjölda athuga­semda sem gerðar voru við varnir lands­ins gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.

Tals­verðir veik­leikar í vörnum Íslands

Ísland er aðili að FATF og skuld­batt sig árið 1991 til að sam­ræma lög­gjöf sína til­mælum sam­tak­anna. Til að kanna hvort ríki sem taki þátt í sam­starf­inu fylgi þeirri skuld­bind­ingu fram­kvæma sam­tökin úttektir á því hvernig aðild­ar­ríkjum hefur tek­ist að inn­leiða til­mæl­in. Í apríl 2018 birtu þau skýrslu um Ísland. Í stefnu íslenskra stjórn­valda í aðgerðum gegn pen­inga­þvætti, fjár­mögnun hryðju­verka og útbreiðslu og fjár­mögnun ger­eyð­ing­ar­vopna, sem birt var í júlí 2019, kemur fram að sú úttekt hafi leitt í ljós „tals­verða veik­leika á íslenskri lög­gjöf og fram­kvæmd að þessu leyt­i.“ 

Raunar fengu varnir Íslands gagn­vart pen­inga­þvætti algjöra fall­ein­kunn í skýrsl­unni. Sér­stak­lega var þar fjallað um fjár­magns­höftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóv­em­ber 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF sagði: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfir­völd hafa ekki tekið til­lit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna pen­inga­þvætt­is­/fjár­mögnun hryðju­verka­sam­taka í land­in­u.“

Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregð­ast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægj­an­leg­ar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósam­vinnu­þýð ríki myndi það, að mati inn­lendra hags­muna­að­ila, leiða til þess að orðstír og trú­verð­ug­leiki Íslands á alþjóða­vett­vangi biði veru­legan hnekki.

Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strang­ari kröfur til lands­ins og aðila sem þar búa um hvers konar fjár­mála­starf­semi, stofnun úti­búa, dótt­ur­fé­laga og umboðs­skrif­stofa og jafn­vel útgáfu aðvar­ana um að við­skipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á pen­inga­þvætti.

Brugð­ist við

Skýrsla FATF ýtti veru­lega við málum hér­lend­is. Það þurfti að bregð­ast við þessum athuga­semdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða pen­inga­þvætt­is­til­skipun Evr­ópu­sam­bands­ins yrði tekin upp í samn­ingnum um Evr­ópska efna­hags­svæðið (EES) í des­em­ber 2018.

Starfs­hópur á vegum dóms­mála­ráð­herra var því settur í að semja frum­varp um heild­ar­end­ur­skoðun á lögum um pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.

Sú vinna skil­aði því að Sig­ríður Á. And­er­sen dóms­mála­ráð­herra lagði fram frum­varp um ný heild­ar­lög 5. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn. Málið var afgreitt frá efna­hags- og við­skipta­nefnd 12. des­em­ber og síð­ari tvær umræður kláraðar dag­inn án ann­arra ræðu­halda en Brynjars Níels­son­ar, sem mælti fyrir nefnd­ar­á­liti um málið sem full­trúar alla flokka skrif­uðu und­ir.

Frum­varpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þing­manna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. jan­úar 2019.

Fjölgað hefur mjög á því sem áður hét pen­inga­þvætt­is­skrif­stofa hér­aðs­sak­sókn­ara en heitir nú skrif­stofa fjár­mála­grein­inga lög­reglu, fjár­munir hafa verið settir í að kaupa upp­lýs­inga­kerfi til að taka á móti og halda utan um til­kynn­ingar um pen­inga­þvætti og eft­ir­lit með starf­semi innan bank­anna sjálfra hefur verið eflt.

Þá gaf stýri­hópur dóms­­mála­ráð­herra um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka út nýj­an fræðslu­bæk­l­ing í síð­ustu viku sem bein­ist að því að fræða almanna­heilla­­fé­lög um góða stjórn­­­ar­hætti til að koma í veg fyrir að starf­­semi þeirra sé mis­­not­uð.

Marg­hátt­aðar athuga­semdir vegna Arion banka

Kjarn­inn greindi frá því 31. maí síð­ast­lið­inn að FME hefði fram­kvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Slík athugun á Arion banka hófst í októ­ber 2018 og leiddi til þess að eft­ir­litið gerði marg­hátt­aðar athuga­semdir við brotala­mir hjá bank­anum í jan­úar 2019. 

Nið­ur­staða athug­unar FME á Arion banka var birt 29. maí síð­ast­lið­inn, rúmum fjórum mán­uðum eftir að nið­ur­staða athug­un­ar­innar lá fyr­ir. Það var gert að beiðni Arion banka sem vildi fá að bregð­ast við úrbóta­kröfum áður en nið­ur­staðan yrði gerð opin­ber. Bank­inn seg­ist hafa brugð­ist við öllum úrbóta­kröf­um. FME vill ekki svara því hvaða tímara­mma Arion banka var settur til að koma á úrbót­u­m. 

Í athugun FME á Arion banka kom meðal ann­ars fram að bank­inn hefði hefði ekki metið með sjálf­­stæðum hætti hvort upp­­lýs­ingar um raun­veru­­lega eig­endur við­­skipta­vina væru réttar og full­nægj­andi og að þær upp­­lýs­ingar hafi ekki verið upp­­­færðar með reglu­­legum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka gerðu ráð fyr­­ir. Eft­ir­litið gerði einnig athuga­­semd um að Arion banki hefði ekki sinnt rann­­sókn­­ar­­skyldu sinni í til­­viki erlends við­­skipta­vin­­ar, það taldi að reglu­bundið eft­ir­lit bank­ans með við­­skipta­vinum hafi ekki full­nægt kröfum laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­­­mögnun hryðju­verka né að verk­lag í tengslum við upp­­­færslu á upp­­lýs­ingum um við­­skipta­vini hafi ekki verið full­nægt. Þá taldi FME að skýrslur Arion banka um grun­­sam­­legar og óvenju­­legar færslur hefðu ekki verið full­nægj­andi.

Vildu ekki svara

Kjarn­inn spurð­ist í kjöl­farið fyrir um það hvort að það stæði yfir athugun á aðgerðum Lands­bank­ans, Íslands­banka og Kviku banka gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Fjár­mála­eft­ir­litið vildi ekki svara því hvort slík athugun væri í gang­i. 



Í svari eft­ir­lits­ins sagði að það hafi, í ljósi þeirra úrbótakrafna sem settar voru fram af hendi FATF, lagt auk­inn þunga í verk­efni tengd vörnum gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka á und­an­förnum árum. „Í því sam­bandi hefur verið fram­kvæmt áhættu­mat á öllum til­kynn­ing­ar­skyldum aðilum og hefur eft­ir­lit verið við­haft í sam­ræmi við það mat, fræðsla hefur verið efld til muna (með fræðslu­efni og fræðslu­fund­um) auk þess sem fjöldi og gæði athug­ana hafa auk­ist.“

Frá árinu 2017 og til dags­ins í dag hafi verið fram­kvæmdar tæp­lega 20 athug­anir hjá til­kynn­ing­ar­skyldum aðilum sem lúta eft­ir­liti stofn­un­ar­inn­ar. „Þá standa nú yfir þrjár athug­anir en í sam­ræmi við heim­ildir í lögum og gagn­sæ­is­stefnu Fjár­mála­eft­ir­lits­ins kann stofn­unin innan tíðar að birta gagn­sæ­istil­kynn­ingar vegna þeirra athug­ana. Fleiri athug­anir eru einnig fyr­ir­hug­aðar á næstum mán­uð­um. Þær athug­anir sem hafa verið fram­kvæmdar og standa nú yfir hafa tekið mið af þeim athuga­semdum sem FATF gerði í skýrslu sinn­i.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar