Mynd: Pexels.com

Ísland áfram í aukinni eftirfylgni vegna peningaþvættisvarna

Lokaútgáfa skýrslu um peningaþvættisvarnir Íslands, vegna athugunar sem alþjóðleg samtök hafa unnið að frá því í fyrravor, mun verða birt fyrstu vikuna í september. Á meðal þess sem fram kemur í henni er að Ísland verður áfram í „aukinni eftirfylgni“ hjá samtökunum.

Íslands skilaði Financial Action Task Force (FATF), alþjóðlegum samtökum sem hafa það hlutverk að móta aðgerðir til að hindra að fjármálakerfið sé misnotað í þeim tilgangi að koma illa fengnu fé í umferð aftur, eftirfylgnisskýrslu vegna aðgerða sem Ísland hefur gripið til til að bæta varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, snemma í sumar. Skýrslan var tekin til umræðu á fundi FATF þann 19. júní síðastliðinn, en Ísland hafði fram til þess tíma til að bregðast við fjölmörgum athugasemdum FATF og sleppa við að vera sett á lista samtakanna yfir ósamvinnuþýð ríki. 

Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um málið kemur fram að unnið sé að lokaútgáfu skýrslunnar og að áætlað sé að hún verði birt á heimasíðu FATF fyrstu vikuna í september. „Efnisþættir skýrslunnar lúta aðallega að fylgni Íslands við tilmæli FATF og er megin niðurstaða hennar hækkun á 14 tilmælum og staðfesting á því að Ísland verði áfram í aukinni eftirfylgni hjá FATF.“

Samkvæmt upplýsingum Kjarnans mun sú eftirfylgni meðal annars fela í sér fundarhöld þar sem fulltrúar frá Íslandi munu fara erlendis til að ræða athugasemdir FATF. Í kjölfarið verður málið formlega tekið fyrir á fundi samtakanna, fyrst undirbúningsfundi en svo þar sem fulltrúar allra aðildarríkja sitja. Allt þetta á að klárast fyrir áramót og í kjölfarið á að liggja fyrir skýrari mynd um hvort að Ísland hafi gert nóg til að bregðast við þeim mikla fjölda athugasemda sem gerðar voru við varnir landsins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Talsverðir veikleikar í vörnum Íslands

Ísland er aðili að FATF og skuldbatt sig árið 1991 til að samræma löggjöf sína tilmælum samtakanna. Til að kanna hvort ríki sem taki þátt í samstarfinu fylgi þeirri skuldbindingu framkvæma samtökin úttektir á því hvernig aðildarríkjum hefur tekist að innleiða tilmælin. Í apríl 2018 birtu þau skýrslu um Ísland. Í stefnu íslenskra stjórnvalda í aðgerðum gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna, sem birt var í júlí 2019, kemur fram að sú úttekt hafi leitt í ljós „talsverða veikleika á íslenskri löggjöf og framkvæmd að þessu leyti.“ 

Raunar fengu varnir Íslands gagnvart peningaþvætti algjöra falleinkunn í skýrslunni. Sérstaklega var þar fjallað um fjármagnshöftin sem voru við lýði á Íslandi frá nóvember 2008 og fram í mars 2017. Í skýrslu FATF sagði: „Þessum höftum var lyft í mars 2017 og yfirvöld hafa ekki tekið tillit til þeirra áhrifa sem það geti haft á áhættu vegna peningaþvættis/fjármögnun hryðjuverkasamtaka í landinu.“

Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki.

Ef Ísland yrði sett á slíkan lista myndi það einnig leiða til þess að gerðar yrðu strangari kröfur til landsins og aðila sem þar búa um hvers konar fjármálastarfsemi, stofnun útibúa, dótturfélaga og umboðsskrifstofa og jafnvel útgáfu aðvarana um að viðskipti við íslenska aðila sem gætu falið í sér hættu á peningaþvætti.

Brugðist við

Skýrsla FATF ýtti verulega við málum hérlendis. Það þurfti að bregðast við þessum athugasemdum hratt, auk þess sem fyrir lá að fjórða peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins yrði tekin upp í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) í desember 2018.

Starfshópur á vegum dómsmálaráðherra var því settur í að semja frumvarp um heildarendurskoðun á lögum um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Sú vinna skilaði því að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp um ný heildarlög 5. nóvember síðastliðinn. Málið var afgreitt frá efnahags- og viðskiptanefnd 12. desember og síðari tvær umræður kláraðar daginn án annarra ræðuhalda en Brynjars Níelssonar, sem mælti fyrir nefndaráliti um málið sem fulltrúar alla flokka skrifuðu undir.

Frumvarpið varð að lögum með öllum greiddum atkvæðum þingmanna þann sama dag. Þau tóku gildi þann 1. janúar 2019.

Fjölgað hefur mjög á því sem áður hét peningaþvættisskrifstofa héraðssaksóknara en heitir nú skrifstofa fjármálagreininga lögreglu, fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt.

Þá gaf stýri­hópur dóms­mála­ráð­herra um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka út nýjan fræðslu­bæk­ling í síðustu viku sem bein­ist að því að fræða almanna­heilla­fé­lög um góða stjórn­ar­hætti til að koma í veg fyrir að starf­semi þeirra sé mis­not­uð.

Margháttaðar athugasemdir vegna Arion banka

Kjarninn greindi frá því 31. maí síðastliðinn að FME hefði framkvæmt athugun á aðgerðum Arion banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Slík athugun á Arion banka hófst í október 2018 og leiddi til þess að eftirlitið gerði margháttaðar athugasemdir við brotalamir hjá bankanum í janúar 2019. 

Niðurstaða athugunar FME á Arion banka var birt 29. maí síðastliðinn, rúmum fjórum mánuðum eftir að niðurstaða athugunarinnar lá fyrir. Það var gert að beiðni Arion banka sem vildi fá að bregðast við úrbótakröfum áður en niðurstaðan yrði gerð opinber. Bankinn segist hafa brugðist við öllum úrbótakröfum. FME vill ekki svara því hvaða tímaramma Arion banka var settur til að koma á úrbótum. 

Í athugun FME á Arion banka kom meðal annars fram að bankinn hefði hefði ekki metið með sjálf­stæðum hætti hvort upp­lýs­ingar um raun­veru­lega eig­endur við­skipta­vina væru réttar og full­nægj­andi og að þær upp­lýs­ingar hafi ekki verið upp­færðar með reglu­legum hætti, líkt og lög um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka gerðu ráð fyr­ir. Eft­ir­litið gerði einnig athuga­semd um að Arion banki hefði ekki sinnt rann­sókn­ar­skyldu sinni í til­viki erlends við­skipta­vin­ar, það taldi að reglu­bundið eft­ir­lit bank­ans með við­skipta­vinum hafi ekki full­nægt kröfum laga um aðgerðir gegn pen­inga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka né að verk­lag í tengslum við upp­færslu á upp­lýs­ingum um við­skipta­vini hafi ekki verið full­nægt. Þá taldi FME að skýrslur Arion banka um grun­sam­legar og óvenju­legar færslur hefðu ekki verið full­nægj­andi.

Vildu ekki svara

Kjarninn spurðist í kjölfarið fyrir um það hvort að það stæði yfir athugun á aðgerðum Landsbankans, Íslandsbanka og Kviku banka gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Fjármálaeftirlitið vildi ekki svara því hvort slík athugun væri í gangi. 


Í svari eftirlitsins sagði að það hafi, í ljósi þeirra úrbótakrafna sem settar voru fram af hendi FATF, lagt aukinn þunga í verkefni tengd vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á undanförnum árum. „Í því sambandi hefur verið framkvæmt áhættumat á öllum tilkynningarskyldum aðilum og hefur eftirlit verið viðhaft í samræmi við það mat, fræðsla hefur verið efld til muna (með fræðsluefni og fræðslufundum) auk þess sem fjöldi og gæði athugana hafa aukist.“

Frá árinu 2017 og til dagsins í dag hafi verið framkvæmdar tæplega 20 athuganir hjá tilkynningarskyldum aðilum sem lúta eftirliti stofnunarinnar. „Þá standa nú yfir þrjár athuganir en í samræmi við heimildir í lögum og gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins kann stofnunin innan tíðar að birta gagnsæistilkynningar vegna þeirra athugana. Fleiri athuganir eru einnig fyrirhugaðar á næstum mánuðum. Þær athuganir sem hafa verið framkvæmdar og standa nú yfir hafa tekið mið af þeim athugasemdum sem FATF gerði í skýrslu sinni.“

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar