Miklar hræringar hafa verið í breskum stjórnmálum undanfarna daga en til tíðinda dró þegar nýi forsætisráðherrann, Boris Johnson, tilkynnti að hann ætlaði að fresta þingi í næsta mánuði fram í miðjan október.
Bretar munu að öllum líkindum ganga úr Evrópusambandinu þann 31. október næstkomandi og hefur stjórnarandstaðan tekið þinghléinu óstinnt upp. Jafnframt hefur almenningur tekið við sér en yfir 1,3 milljónir manna hafa skrifað undir áskorun þar sem mælst er til þess að hætt verði við frestun þingsins.
Forsætisráðherrann sagði að ástæðan fyrir frestun þingsins væri sú að stjórn hans hygðist leggja fram lagafrumvörp þar sem tekið væri á mörgum knýjandi málum. Hann gaf lítið fyrir það að ástæðan væri að koma í veg fyrir umræður um Brexit í þinginu og sagði að stjórnarandstaðan hefði nægan tíma.
Svartur dagur í sögu lýðræðisins
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, var ekki par hrifinn af frestuninni en hann sagði í gær að forsætisráðherrann væri með þessu að þrýsta á um útgöngu úr ESB án samnings. Hann sagði enn fremur að þegar þingmenn koma úr sumarfríi á þriðjudaginn hljóti það að verða þeirra fyrsta verk að leggja fram lagaframvarp með það fyrir augum að stöðva þinghléið og leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherrann. Hann sagði að aðgerðir Borisar væru svívirðilegar og aðför að stjórnarskránni.
Nicola Sturgeon, ráðherra skosku stjórnarinnar, tjáði sig einnig um málið í gær en hún sagði að um svartan dag hefði verið að ræða fyrir lýðræðið. Að hætta við þing til þess að neyða í gegn brexit án samnings – og án samráðs við hina þingmennina – væri ekki lýðræði heldur einræði.
Boris „a great one!“
Bandaríkjaforseti blandaði sér í umræðurnar á Twitter í gær en hann sagði að erfitt væri fyrir Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, að koma í gegn vantrauststillögu gegn Boris Johnson í ljósi þess að Boris væri einmitt sá sem Bretland hefði verið að bíða eftir. Hann myndi sanna að hann væri „stórkostlegur“.
Would be very hard for Jeremy Corbyn, the leader of Britain’s Labour Party, to seek a no-confidence vote against New Prime Minister Boris Johnson, especially in light of the fact that Boris is exactly what the U.K. has been looking for, & will prove to be “a great one!” Love U.K.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 28, 2019