Á hverju ári lenda rúmlega hundrað tonn af spilliefnum í urðun sem hluti af blönduðum heimilsúrgangi. Algengustu spilliefnin frá heimilum eru meðal annars málning, skordýraeitur lím, rafhlöður, stíflueyðir og lyf en alls henda um 30 prósent Íslendinga lyfjum í rusl, vask eða klósett. Sorpa hefur kallað eftir því að spilliefnum sé skilað í réttan farveg en tekið er á móti spilliefnum frá heimilum á öllum endurvinnslustöðvum Sorpu.
Naglalökk og olíumálningarfötur eru spilliefni
Samkvæmt Hússorpsrannsókn Sorpa frá árinu 2017 fara um 120 tonn af spilliefnum frá heimilum í urðun. Spilliefni eru efni sem eru skaðleg umhverfinu, mönnum og dýrum og ítrekar Sorpa því mikilvægi þess að spilliefnum, í lokuðum umbúðum með réttum merkingum, sé skilað í endurvinnslustöðvar Sorpu. Þeim spilliefnum er síðan skilað til viðurkenndra móttökuaðila þar sem spilliefnin eru flokkuð og meðhöndluð á réttan hátt og komið til eyðingar eða í endurvinnslu.
Á vef Sorpu segir jafnframt að hægt sé að kaupa umhverfisvottaðar vörur sem hafi ekki jafn skaðleg áhrif á umhverfið. Þar á meðal eru vörur merktar Svaninum eða Evrópublóminu. Auk þess er bent á að hægt sé að búa til eigin hreinsiefni úr til dæmis matarsóda, sítrónu eða ediki.
Tæpur þriðjungur Íslendinga hendir lyfjum í rusl, klósett eða vask
Lyf eru á meðal algengustu spilliefna sem finna má á heimilum en lyf og lyfjaleifar geta valdið skaða og haft mengandi áhrif á menn, dýr og umhverfi ef þau berast út í nátturuna. Samkvæmt Sorpu henda 31 prósent Íslendinga lyfjum í rusl, vask eða klósett þrátt fyrir að ekki megi henda lyfjum þangað.
Samkvæmt Sorpu geta til að mynda sýklalyf sem enda í náttúrunni haft þau áhrif að bakteríur verði ónæmar fyrir lyfjunum, sem geti leitt til þess að erfiðara verður að ráða við sýkingar af því lyfin virka ekki lengur á bakteríurnar.
Enn fremur geti lyf sem innihalda hormóna eða önnur efni sem orsaka hormónabreytingum sem enda í náttúrunni leitt til þess að dýr nái ekki að æxla sig.
Sorpa bendir á að tekið sé á móti gömlum og ónotum lyfjum og umbúðum sem hafa verið í snertingu við lyf í öllum apótekum og þaðan er þeim komið í örugga eyðingu.
Mikilvægt að textíll og gler endi ekki sorptunnum
Í febrúar á næsta ári tekur gas- og jarðgerðarstöð Sorpu til starfa en markmiðið með stöðinni er að endurnýta allan lífrænan úrgang sem fellur til á heimilum á höfuðborgarsvæðinu sem best.
Fyrirtækið ítrekar þó að til þess að það sé mögulegt sé mikilvægt að þeir efnisflokkar sem eiga sér endurnýtingarfarveg, til dæmis gler og textíll eða efni sem eru skaðleg umhverfinu, þar á meðal lyf, spilliefni og raftæki, séu sett í réttan farveg og endi alls ekki í sorptunnum.