Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, munu hittast á fundi í tengslum við heimsókn hans til Íslands. Fundurinn mun eiga sér stað í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 4. september þegar forsætisráðherra kemur til landsins af fundum í Svíþjóð og Danmörku. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjórnarráðinu.
Greint var frá því í síðasta mánuði að Pence muni koma í opinbera heimsókn til landsins þann 4. september næstkomandi. Í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu segir að í ferð Pence til Íslands muni undirstrika mikilvægi Íslands á Norðurslóðum og ræða aðgerðir NATO til að vinna gegn auknum yfirgangi Rússa á því svæði. Þá muni hann ræða tækifæri til að ræða aukningu á viðskiptum og fjárfestingum milli landanna, en enginn fríverslunarsamningur er í gildi sem stendur milli Íslands og Bandaríkjanna.
Fjölmiðlar greindu í kjölfarið frá því að Katrín yrði fjarverandi þegar Mike Pence kæmi til landsins. Hún hafi boðað komu sína á ársþingi Norrænu verkalýðshreyfingarinnar á sama tíma. Sú ákvörðun forsætisráðherra vakti athygli fjölmiðla víða um heim. Nú er hins vegar ljóst að hún mun hitta Pence þann 4. september en ekki kemur fram í tilkynningunni hvað Katrín og Pence muni ræða á fundi sínum.