Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, funduðu í kvöld í Keflavík. Katrín lenti fyrir skömmu eftir að hafa flogið til landsins frá Kaupmannahöfn og Pence mun fljúga frá landinu þegar fundi þeirra, sem áætlað er að standi í um hálftíma, lýkur.
Þau spjölluðu stuttlega við blaðamenn áður en fundurinn hófst og þar sagðist Katrín ætla að ræða um norðurslóðir við Pence, og sérstaklega stærstu ógnina sem svæðið standi frammi fyrir, sem sé loftslagsváin. Pence er þekktur fyrir að hafna því að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu raunverulegar og ríkisstjórnin sem hann tilheyrir dró Bandaríkin meðal annars út úr Parísarsáttmálanum.
Katrín sagði að loftslagsbreytingar myndu hafa meiri áhrif á norðurslóðir en nokkuð annað svæði á jörðinni. Við værum mjög uggandi um það hér á Íslandi. „Eins og þú veist, herra varaforseti, þá er kjarni stefnu okkar ríkisstjórnar um ýmis mál. Loftslagsmál er eitt þeirra. Jafnrétti kynjanna er annað. Við tölum aðeins um það vona ég. Þannig að það verða nokkur mál sem við munum ræða utan viðskipta-, varnar- og öryggismála sem við munum tala um.“
Hún staðfesti síðan í viðtali við RÚV að fundinum loknum að aukin hernaðaruppbygging í Keflavík sem er að eiga sér stað hafi verið rædd. Þar staðfesti hún einnig að hún hefði rætt málefni hinsegin fólks við Pence en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að vinna gegn réttindum samkynhneigðra og hinsegin fólks. Birtingarmyndir þess hafa verið margar.
Til að mynda lítur hann svo á að samkynhneigð sé val sem gæti leitt til samfélagslegs hruns og að það sé vilji guðs að koma í veg fyrir slíka.
Þá samþykkti hann sem ríkisstjóri í Indíana umdeilda lagasetningu á sínum tíma um að til dæmis veitingahúsaeigendur mættu neita hinsegin fólki um afgreiðslu af trúarlegum ástæðum.
Mikil áhersla á að stöðva viðskipti við Kína
Pence ræddi líka við blaðamenn fyrir fundinn og endurtók þar margt af því sem hann hafði sagt fyrr í dag. Sú orðræða snerist um gott samband Íslands og sérstaka áherslu á öryggis- og varnarmál.
Þá hefur hann lagt mikla áherslu á að vara við samstarfi við Kínverja, sérstaklega hvað varðar aukin áhrif þeirra á norðurslóðum, en Bandaríkin standa nú í miklu tollastríði við Kínverja.
Pence sagði hann vonaðist til þess að Íslendingar myndu ekki eiga frekara samstarf við kínverska fjarskiptarisann Huawei um uppbyggingu 5-G tækninnar, en Huawei er umsvifamikið hérlendis þar sem kerfi Nova er byggt upp með tækni frá fyrirtækinu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra dró úr þeirri yfirlýsingu Pence sem féll fyrr í dag í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2, að Ísland hefði hafnað þátttöku í fjárfestingaráætlun Kínverja sem kallast „Belti og braut“. Guðlaugur Þór sagði að Ísland væri með margskonar samninga við Kína og hefði áhuga á að auka samskipti og viðskipti við ríkið. Engin ákvörðun lægi þó fyrir varðandi „Belti og braut“. Ísland hefði hvorki sagt af eða á í þeim efnum. Katrín endurtók þetta við blaðamenn í aðdraganda fundar síns við Pence.
Hægt er að lesa allt um hvað felst í „Belti og braut“ hér í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans um verkefnið.