Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, segir það augljósa hagsmuni Íslendinga að fá sem hæst verð fyrir þá raforku sem framleidd er hérlendis. Það sé sennilega jafn ljós staðreynd og að Ísland hafi ríka hagsmuni af því að fá sem hæst verð fyrir sjávarafurðir. Hann segir einnig að Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sé betur að sér í lýðskrumi en hann sjálfur.
Tilefnið er það að Vilhjálmur ásakaði Þorstein og Viðreisn um lýðskrum í grein sem birtist á Miðjunni í gær vegna þess að Þorsteinn, sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Samáls og Samtaka atvinnulífsins, hafi skrifað grein árið 2011 þar sem fram hafi komið að stóriðja hafi staðið undir arðsemi Landsvirkjunar.
Vilhjálmur taldi það lýðskrum að Þorsteinn hefði sagt slíkt þá en væri nú þeirrar skoðunar að Landsvirkjun ætti að fá sem mest fyrir þá raforku sem fyrirtækið framleiðir. Vilhjálmur hefur ítrekað lýst því yfir undanfarið að hann vilji að Landsvirkjun niðurgreiði störf í stóriðju með því að selja slíkri raforku undir markaðsvirði. Annars sé atvinnuöryggi félagsmanna hans, sem starfa við stóriðjuverksmiðjur Elkem og Norðuráls á Grundartanga, ógnað.
Stoltur af lýðskrumi ef í því felst að tala fyrir hagsmunum
Þorsteinn segir í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að hann skilji ekki hvernig sú einfalda yfirlýsing hans sem Vilhjálmur vísi til feli í sér lýðskrum „en játa um leið að Vilhjálmur er auðvitað talsvert betur að sér í þeim fræðum en ég.“
Vilhjálmur Birgisson sakar mig um lýðskrum með þvi að benda á þá augljósu staðreynd í viðtali í Bítinu í vikunni að...
Posted by Þorsteinn Viglundsson on Thursday, September 5, 2019
Vilhjálmur deildi skrifum sínum af Miðjunni í gær á Facebook og í stöðuuppfærslu sem fylgdi með kallaði hann eftir því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, útskýrði fyrir „starfsmönnum álversins í Straumsvík sem er nú í hennar heimabyggð og kjördæmi að frá því að nýr raforkusamningur við Landsvirkjunar var gerður í lok árs 2010 hefur fyrirtækið verið rekið með tapi öll árin að undanskildu einu ári eða sem nemur 15 milljarða tapi á 7 ára tímabili.
Það er þyngra en tárum taki hvernig stjórnmálamenn geta hagað sér, en eitt er víst að stefnt er markvisst að því að ógna atvinnuöryggi og lífsafkomu þeirra sem tengjast orkufrekum iðnaði með græðgisvæðingu Landsvirkjunar.“
Ég sé það betur og betur að Viðreisn trónir á toppi lýðskrums í íslensku samfélagi og kannski formaður Viðreisnar...
Posted by Vilhjálmur Birgisson on Wednesday, September 4, 2019
Auðlindarentan myndi lenda hjá erlendum stórfyrirtækjum
Í kjölfar þess að Vilhjálmur hóf opinbera baráttu sína fyrir niðurgreiðslu á raforkuverði orkufyrirtækis í ríkiseigu til stóriðju skrifaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, grein á Kjarnann til að svara Vilhjálmi. Þar sagði hann að verðið sem t.d. Elkem greiði sé enn undir meðalkostnaðarverði og verulea undir kostnaðarverði síðustu virkjana Landsvirkjunar.
Það sjónarmið að erlendum stórfyrirtækjum væri veitt raforka á óeðlilega lágu verði, líkt og Vilhjálmur væri að kalla eftir, fæli í raun í sér kröfu um afsal þjóðarinnar á fullum afrakstri orkuauðlinda Íslands. „Afleiðingin af því yrði sú að auðlindarentan myndi lenda utan landsteinanna. Sem betur fer er rekstur þeirra öflugu erlendu stórfyrirtækja sem hafa hér starfsemi með þeim hætti að hann þolir að greiða Íslendingum alþjóðlegt markaðsverð á raforku[...]
Það er því engin ástæða fyrir aðila, sem standa utan samningssambands fyrirtækjanna, að gerast hagsmunagæslumenn alþjóðlegra stóriðjufyrirtækja á opinberum vettvangi í samningaviðræðum við Landsvirkjun um raforkuverð. Þau eru fullfær um að gæta sinna hagsmuna sjálf.“