Nýju átaki, Hættum að urða– Finnum lausnir, hefur verið hleypt af stokkunum. Markmið átaksins er að vekja athygli á ókostum urðunar en hér á landi eru rúmlega 200 þúsund tonn af sorpi urðuð á hverju ári. Á vef átaksins er fólk hvatt til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um að finna leiðir til að hætta urðun og í lok september verður áskorun og undirskriftalistinn afhendur stjórnvöldum.
Líta á rusl sem hráefni til að nýta
Á hverju ári eru tæplega 220 þúsund tonn af sorpi urðuð hér á landi en það eru meira en 20 Eiffel turnar af rusli sem grafnir eru ofan í landið árlega. Í fréttatilkynningu átaksins segir um sé ræða gríðarlegt vandamál sem Íslendingum beri skylda að finna lausn á og stöðva.
„Urðun í slíku magni hefur slæm áhrif á jarðgæði og loftgæði og eru í eðli sínu slæm nýting á takmörkuðum auðlindum jarðarinnar. Sorp getur verið margar aldir að brotna niður,“ segir í fréttatilkynningunni.
Íslenska gámafélagið leiðir átakið en með því vill fyrirtækið stuðla að skilvirkari og umhverfisvænni leiðum við förgun og endurvinnslu, þar sem hætt verði að líta á rusl sem úrgang, heldur fremur sem hráefni til að nýta.
Hægt að flytja sorpið úr landi án þess að auka sótspor
Á hverju ári falla til frá heimilum og fyrirtækjum landsins um 530 þúsund tonn af almennu rusli og af því er um helmingurinn urðaður. Gámafélagið segir að með aukinni endurvinnlsu sé raunhæft að draga úr urðun sem um nemur 20 til 50 þúsund tonnum. Þá standa þó enn eftir um 150 til 180 þúsund tonn sem urða þarf á hverju ári.
Samkvæmt gámafélaginu væri hins vegar strax hægt að láta af nær allri urðun hér á landi með því að flytja ruslið til brennslu í Evrópu, þar sem það nýtist til húshitunar. Félagið segir að sótspor landins muni ekki stækka í kjölfarið þar sem skipin séu hvort það er á ferðinni og að flutningsgeta þeirra sé ónýtt vegna misræmis í magni á inn- og útflutningi.
„Með því að flytja sorpið til Evrópu þar sem það er nýtt til húshitunar náum við hins vegar strax nærri 100 prósenta endurvinnslu á öllu rusli,“ segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.
Útflutningur á okkar eigin úrgangi umhverfisleg ósvinna
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir hins vegar að útflutningur á úrgangi sé „umhverfisleg ósvinna“ af margvíslegum toga. Hann gagnrýnir átakið í Facebook-færslu í dag og bendir á að Íslenska gámafélagið og Samskip standa að baki herferðarinnar.
„En það vekur athygli að þeir sem virðast kosta þessa herferð sú einmitt Íslenska Gámafélagið og Samskip. Þær yrðu margar ferðirnar sem farnar yrðu með sorpgámana í skip Samskip alls staðar að af landinu og margir farmarnir til Svíþjóðar með heil 150 þús tonn af úrgangi árlega. Þeir munu græða en við borgum,“ skrifar Einar.
Hann segir að urðun sé ekki slæm ef rétt sé að henni staðið en að þá þurfi að flokka eiturefni frá og annað sem þykir hagnýtt til endurvinnslu. „Vilji menn brenna sorp, líkt og á Norðurlöndunum gerum við það hér heima, en flytjum ekki okkar eigin úrgang til annara. Þeir geta á hagkvæman virkjað vindinn og sól skorti þar orku,“ segir Einar.
Undirskriftalisti afhendur stjórnvöldum í lok september
Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona og talsmaður átaksins, segir að þau sem standi að átakinu vilji gefa fólki færi á að senda stjórnvöldum skýr skilaboð um að líta beri á sorp sem auðlind en ekki vandamál.
„Við finnum ekki lausnir fyrr en við byrjum að leita að þeim. Fyrsta skrefið er að ákveða að núverandi ástand geti ekki varað lengur. Staðreyndin er að nú þegar eru þær lausnir til staðar sem duga til að stöðva urðun alfarið á skömmum tíma. Við viljum gefa fólki færi á að senda stjórnvöldum skýr skilaboð um að líta beri á sorp sem auðlind, ekki vandamál. Með réttu hugarfari finnum við lausnir sem henta hverju sinni. Og með samstilltu átaki getum við hvatt stjórnvöld til að stöðva urðun,“ segir Halldóra í fréttatilkynningu átaksins.
Átakið verður í gangi út septembermánuð og í lok þess verður svo áskorun og listi með þeim undirskriftum sem safnast hafa afhentur stjórnvöldum.