Frá því í vor hafa lántakendur frekar tekið lán, bæði verðtryggð og óverðtryggð, með breytilegum vöxtum hjá bönkunum. Aukin aðsókn var í fasta vexti á íbúðalánum í efnahagsóvissunni í apríl síðastliðnum en breytilegir vextir hafa sótt í sig veðrið síðan þá. Flest lánanna hjá bönkunum á síðustu þremur mánuðum voru tekin á breytilegum vöxtum og alls 100 prósent allra hreinna óverðtryggða lána. Íbúðalánasjóður segir þetta gefa til kynna að lántakendur vænti vaxtalækkunar á komandi misserum.
Aukning í óverðtryggðum lánum
Í nýrri mánaðarskýrslu Íbúalánasjóðs kemur fram eftir að hafa minnkað samfellt fyrstu fjóra mánuði ársins jukust íbúðalán í maí, júní og júlí.
Í júlí síðastliðnum námu hrein ný íbúðalán alls um 14,3 milljörðum króna, þar af voru hrein óverðtryggð lán 9,5 milljarðar og verðtryggð 4,8 milljarðar. Frá sama tímabili í fyrra hafa heildarfjárhæðir nýrra íbúðalána heimilanna, að frádregnum umfram- og uppgreiðslum eldri lána, dregist saman af nafnvirði um 0,9 prósent.
Þá hafa Íslendingar tekið óverðtryggð lán í meira mæli en verðtryggð á fyrstu sjö mánuðum ársins en alls námu hrein ný óverðtryggð íbúðalán heimilanna alls 71 milljarð króna og verðtryggð 21 milljarða. Vöxtur óverðtryggðra lána mælist um tæp 45 prósent á milli ára en á móti vegur að hrein ný verðtryggð lán drógust saman um 52 prósent á verðlagi hvors árs.
Efnahagsóvissa í kjölfar falls WOW air
Bæði innan lífeyrissjóðanna og bankakerfisins
stendur val lántakenda á milli þess að taka ný
íbúðalán á vöxtum sem eru breytilegir eða á föstum
kjörum til ákveðins tíma.
Í skýrslu Íbúðalánasjóðs segir að almennt hafi verið meira um að lántakendur kjósi verðtryggð lán hjá bönkum á breytilegum vöxtum fremur en að festa sér vaxtakjör fimm ár fram í tímann á undanförnum árum. Sú þróun snerist aftur á móti við á þessu ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins nam heildarfjárhæð hreinna nýrra lána á föstum vöxtum til fimm ára 11,2 milljörðum króna en lán á breytilegum vöxtum 9,4 milljörðum.
Þessi aukning á vali á föstum vaxtakjörum skýrist fyrst og fremst af aukningu slíkra lána í apríl síðastliðnum. Samkvæmt Íbúðalánasjóði er ekki ólíklegt að þá aukningu megi rekja til þeirrar efnahagslegu óvissu sem skapaðist í kjölfar gjaldþrots WOW Air í lok marsmánaðar.
Meirihluti lána í júní og júlí tekin með breytilegum vöxtum
Lántakendur virðast þó vera vænta vaxtalækkunar á komandi misserum en í júní og júlí voru að minnsta kosti 65 prósent verðtryggðra lána tekin með breytilegum vöxtum.
Ef horft er til óverðtryggðra lána er þróunin enn skýrari. Óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum hjá bönkum hafa tæplega fjórfaldast það sem af er ári, en 100 prósent hreinna óverðtryggðra íbúðalána bankanna í júní og júlí voru á slíkum kjörum.
Frá því í maí síðastliðnum hefur Seðlabanki Íslands lækkað sína meginvexti í þremur atrennum úr 4,5 prósent niður í 3,5 prósent. Samhliða þessu hafa lægstu verðtryggðu breytilegu vextir innan bankakerfisins lækkað um 0,15 prósentustig en fastir vextir til 5 ára á sama tíma lækkað um 0,55 prósentustig.
Landsbankinn lægstur
Af viðskiptabönkunum býður Landsbankinn bestu kjörin í dag. Bankinn býður nú upp á 3,25 prósent verðtryggða breytilega vexti, upp að 70 prósent af kaupverði.
Þá hefur Landsbankinn verið að bæta kjör á verðtryggðum lánum með föstum vöxtum. Við síðustu vaxtabreytingu hjá Landsbankanum, sem varð í síðustu viku, fóru slíkir vextir hjá bankanum niður fyrir þrjú prósent í fyrsta skiptið, ef miðað er við 70 prósent lántöku, og eru nú 2,96 prósent. Það eru lægstu föstu verðtryggðu vextir sem í boði eru á íslenska markaðnum um þessar mundir.
Auk þess býður Landsbankinn upp á 5,48 prósent breytilega óverðtryggða vexti, ef miðað er við 85 prósenta lántöku. Fastir óverðtryggðir vextir bankans til þriggja ára eru 6,06 prósent, ef miðað er við 85 prósenta lántöku.
Bjóða nú 1,77 prósent vexti
Viðskiptabankarnir eru þó eftir sem áður eftirbátar lífeyrissjóðanna þegar kemur að vaxtakjörum. Ný útlán, að frádregnum upp - og umframgreiðslum, hjá lífeyrissjóðum landsins voru í júlí 7,2 milljarðar króna. Þar af rúmlega 4,9 milljarðar verðtryggt og tæplega 2,3 milljarðar óverðtryggt.
Upplýsingar um hvort ný lán hafi verið tekin á breytilegum eða föstum vöxtum eru hins vegar ekki aðgengilegar hjá lífeyrissjóðunum.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna býður upp á lægstu föstu óverðtryggðu vextina, en þeir eru 5,14 prósent hjá sjóðnum ef lántaki er tilbúinn að festa sig í þrjú ár.
Þegar kemur að breytilegum óverðtryggðum lánum þá býður lífeyrissjóðurinn Birta upp á langbestu kjörin fyrir sína sjóðfélaga. Þeir geta fengið óverðtryggt lán á 4,6 prósent vöxtum en Birta lánar einungis fyrir 65 prósent af kaupverði að hámarki.
Lægstu verðtryggðu breytilegu vextir sem hægt er að fá vegna töku húsnæðislána eru nú 1,77 prósent, hjá Almenna lífeyrissjóðnum eftir að hann lækkaði vexti sína nýverið. Almenni lánar fyrir 70 prósent af kaupverði.