Mynd: Birgir Þór Harðarson

Nýr veruleiki íslenska húsnæðislántakandans

Lánakjör Íslendinga á húsnæðislánamarkaði hafa gjörbreyst á örfáum árum. Fyrir hrun voru húsnæðislán heimila veðmál um hvernig annað hvort verðbólga eða gengi krónu myndi þróast, og ofan á það þurftu þau að borga svimandi háa vexti. Í dag eru bestu verðtryggðu vextir undir tvö prósent, verðbólga hefur verið lág árum saman og óverðtryggðir vextir eru lægri en þeir sem stóðu til boða á verðtryggðum lánum árið 2008.

Í ágúst 2004, fyrir 15 árum, fékk Íbúða­lána­sjóður sam­keppni á hús­næð­is­lána­mark­aði. Þá ákvað KB banki, síðar Kaup­þing, að byrja að lána til við­skipta­vina sinna á 4,4 pró­sent verð­tryggðum föstum vöxt­um. Hægt var að fá lánað allt að 80 pró­sent af verð­mati fast­eignar ef hún var á höf­uð­borg­ar­svæð­inu eða Akur­eyri en 60 pró­sent ann­ars­staðar á land­inu.

Aðrir við­skipta­bankar þess tíma, og spari­sjóð­ir, fylgdu í kjöl­farið og innan nokk­urra mán­aða voru þeir farnir að und­ir­bjóða hvorn ann­an. Áður en árið 2004 var úti var hægt að fá 100 pró­sent hús­næð­is­lán. Það var sem­sagt hægt að kaupa sér íbúð eða hús án þess að leggja fram eina krónu. Vert er þó að taka fram að þá þurfti að taka við­bót­ar­lán fyrir síð­asta fimmt­ungi kaup­verðs­ins, sem voru á verri kjörum og oftar en ekki með styttri láns­tíma. Helsti mark­hóp­ur­inn fyrir þessi lán var ungt fólk sem þurfti að fjár­magna sín fyrstu íbúða­kaup. Lægst fóru verð­tryggðu vext­irnir í 4,15 pró­sent. 

Í byrjun árs 2006 fóru vext­irnir hins vegar að hækka umtals­vert og þegar komið var inn á árið 2008 voru þeir meira og minna yfir sex til sjö pró­sent verð­tryggt hjá stóru við­skipta­bönk­unum þremur auk þess sem að veð­hlut­fall tók að lækka. Hægt var að fá aðeins skap­legri vexti hjá Íbúða­lána­sjóði en þar var hámarks­upp­hæð á lánum sem gerði þau ekki að raun­hæfum val­kosti fyrir stóran hluta almenn­ings, í ljósi þess að hús­næð­is­verð hafði hækkað hratt. 

Veðjað á verð­bólgu eða gengi krónu

Óverð­tryggð hús­næð­is­lán voru ekki almennt í boði á þessum árum. Um 90 pró­sent þeirrar upp­hæðar sem hafði verið lánað út til kaupa á hús­næði í byrjun árs 2008 var því í formi verð­tryggðra lána. Restin voru geng­is­tryggð lán, stundum kölluð mynt­körfu­lán, þar sem lán­tak­inn tók í raun lán í öðrum gjald­miðli en íslensku krón­unni og fékk skap­legri vexti á móti. Áhættan sem við­kom­andi tók var sú að ef íslenska krónan veikt­ist þá hækk­aði höf­uð­stóll láns­ins í takti við það. 

Á árinu 2008 veikt­ist hún um tugi pró­senta sem stökk­breytti geng­is­lán­un­um. Mörg þeirra voru síðar dæmd ólög­leg og þeir sem voru með slík komu margir hverjir ansi vel undan hrun­inu, enda þurftu þeir ein­ungis að greiða lága óver­tryggða vexti í stað­inn. Þeir sem voru með geng­is­tryggð lán sem voru ekki ólög­leg, eða höfðu lent á fjár­hags­legum vegg áður en að nið­ur­staða dóm­stóla í þeim málum lá fyr­ir, misstu hins vegar margir hverjir heim­ilin sín. Og sumir fóru í þrot. 

En fyrir meg­in­þorra þjóð­ar­innar voru 4,15 til allt að sjö pró­sent verð­tryggðir fastir vextir raun­veru­leik­inn. Þegar við bæt­ist að verð­bólga, sem reikn­ast sem verð­bætur á höf­uð­stól verð­tryggðra lána, var á bil­inu 5,8 til 18,1 pró­sent á árinu 2008 var ljóst að leitun var á verri stað í heim­inum til að taka hús­næð­is­lán en Íslandi á þessum árum. 

Til­tekt og áfram slök kjör

Eftir banka­hrunið var ráð­ist í margar sér­tækar aðgerðir til að mæta gríð­ar­legri skuld­setn­ingu heim­ila sem þetta umhverfi hafði leitt af sér. Þar ber að nefna greiðslur frá fjár­mála­fyr­ir­tækjum til lán­tak­enda vegna ólög­mætis geng­is­lána, sér­tækrar skulda­að­lög­unar og svo­kall­aðrar 110 pró­sent leið­ar. Rík­is­sjóður greiddi síðan fyrst sér­stakar vaxta­bætur til þeirra sem voru með verð­tryggð hús­næð­is­lán og svo Leið­rétt­ing­una til hluta þeirra sem voru með slík lán á árunum 2008 og 2009 í skaða­bætur fyrir verð­bólgu­skot þeirra ára. Sam­an­lagður kostn­aður vegna þess­ara aðgerða hljóp á hund­ruðum millj­arða króna. 

Hluti þeirra kom til fram­kvæmda þegar fast­eigna­verð hafði hækkað marg­falt umfram verð­bólgu og mark­að­ur­inn því búinn að leið­rétta verð­bólgu­skot eft­ir­hrunsár­anna. 

Mark­aðs­kjörin sem stóðu vænt­an­legum íbúða­kaup­endum til boða skán­uðu ekki mikið á fyrstu árunum eftir hrun. Sam­kvæmt sam­an­tekt Lands­bank­ans voru raun­vextir á verð­tryggðum lánum á árunum 2008-2012 5,78 pró­sent. End­ur­reistu við­skipta­bank­arnir hófu að bjóða upp á óverð­tryggð lán eftir hrunið en það var ekki fyrr en á árinu 2010 sem slík lán­taka fór aðeins að taka við sér. Kjörin voru þó áfram sem áður frekar slök í öllum sam­an­burði við þau sam­fé­lög sem Íslend­ingar vilja bera sig saman við. 

Fólk fast í fang­elsi upp­greiðslu­gjalda

Sam­hliða betra efna­hags­ár­ferði lækk­uðu vaxta­kjör bank­anna hægt og rólega næstu árin. Þegar komið var fram á haustið 2015 buðu þeir upp á 70 pró­sent grunn­lán á verð­tryggðum vöxtum sem teygðu sig frá 3,65 pró­sentum í 4,3 pró­sent. Ódýr­ustu óverð­tryggðu lánin báru 7,15 pró­sent vext­i. 

Ýmis­legt hafði þó verið gert til að bæta stöðu lán­tak­enda á þessum árum, meðal ann­ars með laga­breyt­ingum sem leiddu af sér miklar tak­mark­anir á upp­greiðslu­gjöldum og lægri lán­töku­gjöld. Geta fólks til að hreyfa sig á milli lána­forma var því mun meiri en áður. Sá hreyf­an­leiki náði, og nær, reyndar ein­ungis til þeirra sem eru ekki fastir í gömlum lánum frá þeim tíma sem mörg hund­ruð þús­und króna upp­greiðslu­gjöld voru heim­il, og tryggja að margir kveðji ekki afar óhag­stæð lán sín. Í fyrra­vor voru til að mynda enn 7.533 lán hjá Íbúða­lána­sjóði útistand­andi sem voru með upp­greiðslu­þókn­un. Ógjald­fall­inn upp­greiðslu­gjöld þeirra lána, sem voru 93 millj­arða króna virði, voru 5,5 millj­arðar króna. 

Meðvitaðri neytendur skipta um lán í takti við aðstæður

Frá því að líf­eyr­is­sjóð­irnir fóru að bjóða upp á óverð­tryggð hús­næð­is­lán haustið 2015 þá hafa verð­tryggðu lánin nær alltaf verið vin­sælli hjá sjóðsfélögum þeirra. Breyt­ing varð á því síðla árs í fyrra, nánar til­tekið í nóv­em­ber 2018, þegar tekin óverð­tryggð lán voru nán­ast sama upp­hæð og þau sem voru verð­tryggð. Í des­em­ber sama ár gerð­ist það svo í fyrsta sinn að sjóðsfélagar líf­eyr­is­sjóða tóku hærri upp­hæð óverð­tryggða að láni innan mán­aðar en verð­tryggða. Í þeim mán­uði voru rúm­lega 60 pró­sent allra útlána líf­eyr­is­sjóða óverð­tryggð. Þá hafði verð­bólga hækkað nokkuð skarpt á skömmum tíma eftir að hafa verið undir 2,5 pró­sent verð­bólgu­mark­miði Seðla­bank­ans árum sam­an. Í júlí 2018 fór hún yfir það mark­mið í fyrsta sinn í meira en fjögur ár og í des­em­ber mæld­ist hún 3,7 pró­sent.

Ljóst er að þessar svipt­ingar höfðu áhrif á lán­tökur sjóðsfélaga líf­eyr­is­sjóða, þótt að lækk­andi láns­hlut­fall nokk­urra af stærstu líf­eyr­is­sjóðum lands­ins hafi líka getað spilað þar inn í. Heild­ar­út­lán líf­eyr­is­sjóða til sjóðsfélaga sinna fóru lækk­andi mán­uði til mán­aðar frá júlí­mán­uði 2018 og fram í jan­úar árið eft­ir, á meðan að verð­bólgan var að að aukast. Í des­em­ber 2018 námu heild­ar­út­lán, bæði verð­tryggð og óverð­tryggð, ein­ungis um 56 pró­sent af því sem sjóð­irnir höfðu lánað í sama mán­uði árið áður.

Í jan­úar 2019 var verð­bólgan enn há, mæld­ist 3,4 pró­sent, og sjóðsfélagar héldu því áfram að taka frekar óverð­tryggð lán en verð­tryggð, enda hefur verð­bólga bein áhrif á þróun höf­uð­stóls verð­tryggðra lána. Það var þó aug­ljós­lega að fær­ast meira öryggi í hús­næð­is­mark­að­inn vegna þess að heild­ar­lán­taka fór úr tæp­lega 9,1 millj­arði króna í jan­úar úr tæp­lega 5,1 millj­arði króna í mán­uð­inum á und­an, og var umtals­vert hærri en í jan­úar 2018.

Í febr­úar 2019 var hærri heild­ar­upp­hæð tekin að láni hjá líf­eyr­is­sjóðum til hús­næð­is­kaupa en í saman mán­uði árið áður en áhug­inn á verð­tryggðum lánum jókst og fleiri lán­tak­endur tóku slík lán en óverð­tryggð. Sú staða hefur hald­ist síð­ustu mán­uði og við­snún­ing­ur­inn náði hámarki í júní þegar um 67 pró­sent allra nýrra útlána líf­eyr­is­sjóða voru verð­tryggð.

Sá hópur lán­tak­enda hjá Íbúða­lána­sjóði sem ákvað að borga upp­greiðslu­gjaldið á árinum 2016 og 2017 til að geta fært hús­næð­is­fjár­mögnun sína ann­að, alls 3.449 ein­stak­ling­ar, greiddu að með­al­tali 466 þús­und krónur í slíkt gjald. 

Hvað var það sem fékk fólk til að greiða að jafn­aði næstum hálfa milljón króna til til að sleppa úr við­skiptum hjá Íbúða­lána­sjóði á þessum árum, og enn aðra til að greiða sam­bæri­leg upp­greiðslu­gjöld sem voru á lánum frá við­skipta­bönk­um? Svarið er ein­falt, það var varð eðl­is­breyt­ing á íslenskum hús­næð­is­mark­aði síðla árs 2015.

Allt breytt­ist haustið 2015

Í októ­ber það ár til­kynnti Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna, næst stærsti líf­eyr­is­sjóður lands­ins, að hann myndi lækka vexti, hækka láns­hlut­fall upp í 75 pró­sent, lækka lán­töku­kostnað um fjórð­ung og hóf að bjóða upp á óverð­tryggð lán. Verð­tryggðu breyti­legu vext­irnir fóru niður í 3,2 pró­sent og óverð­tryggð vext­irnir voru 6,97 pró­sent. Aðrir líf­eyr­is­sjóðir fóru af sama krafti inn á hús­næð­is­lána­mark­að­inn á þessum tíma og allt í einu höfðu þau lána­kjör sem buð­ust því fólki sem upp­fyllti skil­yrði til lán­töku hjá líf­eyr­is­sjóðum gjör­breyst, nán­ast yfir nótt­u. 

Lánin voru auð­vitað ekki ódýr í alþjóð­legu sam­hengi, en þau voru það þegar horft var á Íslands­sög­una. Og þau áttu bara eftir að lækka.

Þeir hópar landsmanna sem eiga í erfiðleikum með að komast inn á eignarmarkað, t.d. láglaunafólk, öryrkjar og einstæðingar, hafa ekki notið þeirra bættu kjara á húsnæðismarkaði sem orðið hafa á undanförnum árum. Þess í stað hefur húsnæðiskostnaður margra þeirra sem eru fastir á dýrum leigumarkaði hækkað sem hlutfall af tekjum, og gert þeim enn erfiðara fyrir að safna fyrir húsnæði.
Mynd: Bára Huld Beck

Til þess að geta tekið líf­eyr­is­sjóðs­lánin þurfti að hafa greitt í þann sjóð sem tekið var lán hjá og eiga fjórð­ung af kaup­verð­inu eða mark­aðsvirði þeirrar eignar sem verið var að fjár­magna. Í ljósi þess að for­dæma­laus hækkun varð á hækkun á verði íbúða­hús­næðis á árunum 2010 til 2017, þar sem verðið rúm­lega tvö­fald­að­ist, var það auð­sótt fyrir alla sem höfðu komið inn á eign­ar­markað fyrir það tíma­bil eða á fyrri hluta þess. Og lík­ast til fyrir flesta sem það gerðu á árunum 2015 og 2016 lík­a. 

Snemma á árinu 2017 fóru verð­tryggðir hús­næð­is­vextir í fyrsta sinn undir þrjú pró­sent. 

„Skugga­banka­starf­sem­in“ sem gagn­að­ist neyt­endum

Þessi breyt­ing gerði það að verkum að lán­tak­endur flykkt­ust til líf­eyr­is­sjóð­anna. Hlut­deild þeirra óx jafnt og þétt. Ástæða þess að þeir gátu boðið lægri vexti var sú að þeir þurftu ekki að greiða ýmis konar kostnað og skatta sem við­skipta­bank­arnir þurftu að greiða, og veltu yfir á neyt­end­ur. Þar beit mest hinn svo­kall­aði banka­skattur og önnur sér­tæk skatt­lagn­ing sem við­skipta­bankar þurfa að greiða en aðrir lán­veiti­end­ur, eins og líf­eyr­is­sjóð­ir, ekki. Í umsögn sem Sam­tök fjár­mála­fyr­ir­tækja sendu efna­hags- og við­skipta­nefnd Alþingis í maí 2016 beindu sam­tökin því til Alþingis að líf­eyr­is­­sjóðum ætti að vera óheim­ilt að lána til ein­stak­l­inga og fyr­ir­tækja og köll­uðu beinar lán­veit­ingar sjóð­anna „skugga­­banka­­starf­­sem­i“. Alþingi varð ekki við þeirri beiðni.

Katrín Júl­í­us­dótt­ir, fram­­kvæmda­­stjóri sam­tak­anna og fyrr­ver­andi fjár­­­mála­ráð­herra, sagði í sjón­varps­þætti á Hring­braut í maí 2017 að ­sam­keppn­is­­­staða bank­anna hefði skekkst mjög mikið og það gæti til lengri tíma haft mjög alvar­­­leg áhrif á eigna­­­söfn þess­­­ara banka. „Við skulum þá ekki gleyma því að bank­­­arnir eru í eigu rík­­­is­ins og skatt­­­borg­­ar­anna að tveimur þriðju hluta til. Þannig að virði eigna skatt­­­borg­­ar­anna í þessu til­­­viki eru og geta rýrnað þegar til lengri tíma lætur ef þessi skattur heldur áfram vegna þess að sam­keppn­is­­­staðan er ekki sú sama.“

Líf­eyr­is­sjóð­irnir stíga á brems­una

Þegar leið á árið 2017 virt­ist sem að árangur líf­eyr­is­sjóð­anna á þessum mark­aði væri farin að vera nán­ast of góð­ur. Líf­eyr­is­sjóður verzl­un­ar­manna, sem hefur verið einna stór­tæk­astur í útl­anum til sjóðs­fé­laga, lækk­aði veð­hlut­fall á sjóðs­fé­lags­lánum úr 75 í 70 pró­sent sum­arið 2017. LSR lækk­aði sitt láns­hlut­fall með sama hætti 2018 og Gildi fylgdi eftir um síð­ust ármót. Þar með höfðu allir þrír stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins skert aðgengi að lánum hjá sér. Nokkrir sjóðir bjóða enn upp á 75 pró­sent lán. Þeir eru Söfn­un­ar­sjóður líf­eyr­is­rétt­inda, Lífs­verk, Brú og Stapi. Aðrir sjóðir lána á bil­inu 60 til 70 pró­sent af kaup­verð­i. 

Vaxta­kjör líf­eyr­is­sjóð­anna hafa hins vegar haldið áfram að batna. Tveir líf­eyr­is­­­sjóð­ir, Almenni líf­eyr­is­­­sjóð­­­ur­inn og Birta, bjóða nú upp á verð­­­tryggða breyt­i­­­lega vexti sem eru undir tveimur pró­­­sent­­­um. Almenni líf­eyr­is­­­sjóð­­­ur­inn býður upp á bestu slíku vext­ina, eða 1,84 pró­­­sent, og lánar sjóðs­fé­lögum sínum sem greitt hafa í sjóð­inn síð­­­­­ustu þrjá mán­uði fyrir allt að 70 pró­­­sent af kaup­verði. Birta, sem er fjórði stærsti líf­eyr­is­­­sjóður lands­ins, lánar hins vegar þeim sjóðs­fé­lögum sem greitt hafa í sjóð­inn síð­­­­­ustu þrjá mán­uði fyrir allt að 65 pró­­­sent af kaup­verði á 1,97 pró­­­sent verð­­­tryggðum breyt­i­­­legum vöxt­u­m. 

Óverð­tryggðir vextir orðnir lægri en verð­tryggðir voru 2008

Óverð­­tryggðir vextir hafa líka lækkað mjög skarpt. Líf­eyr­is­­­sjóður verzl­un­ar­manna lækk­­aði til að mynda  fasta óverð­­­tryggða vexti sína um miðjan síð­­­asta mánuð og fóru þeir þá úr 6,12 pró­­­sentum í 5,14 pró­­­sent, sem þýðir um 16 pró­­­sent lækk­­­un. 

Hópurinn sem er útilokaður

Eigið fé landsmanna í fasteignum tæplega þrefaldaðist á árunum 2010 til 2017, og var 3.174 milljarðar króna í lok þess síðarnefnda. Þrennt orsakar þessa mikla hækkun. Stærsta ástæðan er sú að fasteignaverð rúmlega tvöfaldaðist á tímabilinu. Þá hafa ríki og fjármálafyrirtæki ráðist í allskyns sértækar aðgerðir sem hafa fært háar fjárhæðir til þeirra sem eru á eigendamarkaði. Þá hefur verðbólga haldist lág yfir langt tímabil og lánakjör samhliða batnað umtalsvert. Allt þetta hefur gagnast þeim sem eiga húsnæði, eða geta komið sér í stöðu til að kaupa slíkt, en gerir stöðu hinna sem sitja eftir að sama skapi verri.

Tölur benda til þess að þessar aðstæður hafi gert aðgengi hluta fyrstu kaupenda inn á markaðinn betra og í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs kom fram að fyrstu íbúðarkaupendum hefði fjölgað meira en annars konar íbúðarkaupendum frá árinu 2009 og að á öðrum ársfjórðungi 2019 hefðu þeir verið 27,7 prósent.

Í skýrslu sem Velferðarráðuneytið og Íbúðarlánasjóður birtu í lok október í fyrra kom hins vegar fram að heilt yfir væri staða húsnæðismarkaðarins hér á landi ólíðandi vegna verðsveiflna sem eru á honum, og orsakast meðal annars af auknu lánaframboði. Þær sveiflur bitna mest á lágtekjufólki sem verji stærri hluta tekna sinna í húsnæðisútgjöld, sérstaklega á leigumarkaði, en aðrir samfélagshópar. ­Mik­ill skortur hefur verið á hús­næði hér á landi, mikil fólks­fjölgun hefur átt sér stað und­an­farin ár vegna mikillar fjölgunar á erlendum ríkisborgurum sem hafa flutt hingað til lands til að starfa, en á sama tima hefur fjöldi byggðra íbúða verið undir lang­tíma­með­al­lagi. Stór hópur fólks býr því við þröngan kost og óör­yggi í hús­næð­is­mál­u­m. Sá hópur er ólíklegastur til að njóta góðs af betri lánakjörum og lántökuskilyrðum sem boðist hafa á síðustu árum.

Eftir þá breyt­ingu eru þeir vextir hag­­­stæð­­­ustu föstu óverð­­­tryggðu vextir sem standa íslenskum íbúð­­­ar­­­kaup­endum til boða. Birta býður hins vegar upp á betri breyt­i­­­lega óverð­­­tryggða vexti til þeirra sjóðs­fé­laga sem upp­­­­­fylla skil­yrði til lán­­­töku. Þeir geta fengið allt að 65 pró­­­sent af kaup­verði á 4,85 pró­­­sent vöxtum hjá þeim sjóði. Sú breyt­ing átti sér stað í byrjun júlí.

Við­skipta­bank­arnir eru eftir sem áður eft­ir­bátar líf­eyr­i­s­jóð­anna þegar kemur að vaxta­kjör­um. Bestu verð­­tryggðu vextir sem við­­skipta­­banki býður eru hjá Lands­­bank­an­um, sem lánar grunn­lán á 3,25 pró­­sent vöxt­­um. Hann býður líka best allra við­­skipta­­bank­anna þegar kemur að óverð­­tryggðum vöxt­um, eða 5,58 pró­­sent. Því munar tæp­lega 77 pró­sent á bestu vaxta­kjörum líf­eyr­is­sjóðs á verð­tryggðum lánum og því besta sem við­skipta­banki getur boð­ið. Á óverð­tyggðu kjör­unum á sam­bæri­legum lánum hjá líf­ey­irs­sjóði ann­ars vegar og við­skipta­banka hins vegar er mun minni mun­ur, en samt tæp níu pró­sent. 

Vextir gætu lækkað enn frekar

Meg­in­vextir Seðla­banka Íslands, oft­ast nefndir stýri­vext­ir, hafa lækkað alls um 0,75 pró­sentu­stig á síð­ustu miss­erum og standa nú í 3,75 pró­sent­um. Þeir eru vissu­lega afar háir í flestum alþjóð­legum sam­an­burði, enda vextir nei­kvæðir um þessar mundir í mörgum lönd­um. 

Vænt­ingar grein­ing­ar­að­ila eru að þeir muni halda áfram að lækka í nán­ustu fram­tíð og að sú lend­ing sem íslenskt efna­hags­líf er að fara í gegnum vegna sam­dráttar í lands­fram­leiðslu í ár geti verið mýkt með pen­inga­stefn­unni, og þar með vaxta­lækk­un­um, en leiði ekki til geng­is­fell­ingar eða verð­bólgu­skots. Þetta sé mögu­legt vegna þess að Ísland standi þrátt fyrir allt vel. Hér er við­skipta­af­gang­ur, eignir erlendis eru umfram skuldir og heim­ili lands­ins hafa frekar ein­beitt sér að sparn­aði en einka­neyslu á síð­ustu árum. 

Haldi stýri­vextir áfram að lækka munu hús­næð­is­lána­kjör lands­manna halda áfram að batna. Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar