Landssamtökin Þroskahjálp skora á Seltjarnarnesbæ að draga til baka „óhóflegar“ hækkanir á leigu félagslegra íbúða og leita leiða til þess að mæta hallarekstri bæjarins án þess að það bitni á þeim sem höllum fæti standa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.
Kjarninn greindi frá því í dag að bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar hefði samþykkti í gær að hækka húsaleigu félagslegra leiguíbúða á Seltjarnarnesi um 45 prósent í áföngum á næstu sex mánuðum. Þegar þessar hækkanir hafa komið til framkvæmda verður leigan á eins herbergja íbúð 75.833 krónur á mánuði, leiga á tveggja herbergja íbúð 117.537 krónur, leiga á þriggja herbergja íbúð í 148.375 krónur og fjögurra herbergja á 173.625 þúsund.
Í fréttatilkynningu Þroskahjálpar segir að þessar fréttir séu sláandi einkum í ljós þess að Seltjarnarnesbær nýti ekki útsvarsstofn sinn að fullu og að meðaltekjur íbúa sveitarfélagsins séu einna hæstar í landinu.
„Það er ólíðandi að hækka útgjöld þeirra sem minnst hafa á milli handanna áður en tekjustofnar sveitarfélaga eru fullnýttir og er sveitarfélagið með þessari ákvörðun að hlífa þeim sem efnameiri eru á kostnað fólks sem nýta þarf félagslegan stuðning,“ segir í fréttatilkynningunni.
Þroskahjálp skorar því á Seltjarnarnesbæ að draga hækkanirnar til baka.